Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin


Björn Bjarnason
22. maí 2014 klukkan 15:05

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeirra við Brusselmenn verði til að draga úr fylgi við menn sem hafa sagt ESB stríð á hendur eins og Geert Wilders í Hollandi og Nigel Farage í Bretlandi.

Því er spáð að stóru þingflokkarnir, mið-hægrimenn í EPP-flokknum og sósíalistar, verði áfram stærstir á ESB-þinginu og EPP aðeins fjölmennari en sósíalistar. Á hinn bóginn er því jafnframt spáð að þingmönnum svonefndra jaðarflokka muni fjölga mjög og er þar vísað til flokka sem gagnrýna ESB fyrir stefnu í innflytjendamálum, miðstjórnaráráttuna í Brussel eða myntsamstarfið um evruna svo að dæmi séu nefnd.

Leiðandi menn hefðbundinna evrópskra stjórnmálaflokka hafa á ýmsan hátt leitast við að slá á áhuga fólks á jaðarflokkunum. Fimmtudaginn 22. maí kveður Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti Frakklands, sér til dæmis hljóðs með grein í vikublaðinu Le Point og gerir tilraun til að slæva áhuga kjósenda á að leggja Þjóðfylkingu Marine Le Pen lið á kjördag í Frakklandi, sunnudaginn 25. maí. Hann hvetur til þess að reglum ESB um innflytjendur verði breytt. Í stað þess sem hann kallar Schengen I komi Schengen II en ríki geti ekki gerst aðili að því nema þau hafi áður innleitt reglur um innflytjendur sem séu sameiginlegar á öllu svæðinu.

Hér á landi má stundum sjá gagnrýni á aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Hún er reist á þeim misskilningi að unnt sé með skoðun vegabréfa á landamærum að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Þar býr einnig að baki sá misskilningur að réttur EES-borgara á að koma hingað til lands ráðist af Schengen-aðildinni. Sarkozy er ekki haldinn slíkum misskilningi heldur hefur hann áhyggjur af straumi ólöglegra innflytjenda eða farandfólks frá löndum utan Schengen-svæðisins til Frakklands. Þetta fólk birtist hér á landi sem hælisleitendur eftir að hafa farið skilríkjalaust um Schengen-svæðið og hafnað hér, í sumum tilvikum til þess eins að laumast ólöglega til Norður-Ameríku.

Alþingi hefur samþykkt ný lög um útlendinga. Þar eru ákvæði sem eiga að tryggja hraðari afgreiðslu á umsóknum hælisleitenda og færa ákvörðunarvald innan stjórnsýslunnar frá ráðherra til úrskurðarnefndar. Komi Schengen II til sögunnar að ósk Sarkozys og vilji Íslendingar aðild að slíku samstarfi virðist afgreiðsla á hælisumsóknum geta flust úr landi til miðlægrar stofnunar.

Tekin yrði afstaða til slíkrar breytingar í fyllingu tímans en á þetta er minnt til að árétta að niðurstaða í ESB-þingkosningunum hefur áhrif á ríki innan og utan ESB. Kosningabaráttan hefur orðið til þess að skýra og skerpa ýmsa þætti. Yfirbragð ESB-þingsins ræðst að sjálfsögðu af þeim sem þar sitja. Á kjörtímabilinu sem er að ljúka hafa þingmenn í mörgu tilliti verið kaþólskari en páfinn varðandi framtíð ESB og samrunaþróunina. Líklegt er að á næsta kjörtímabili verði þingmenn meira á varðbergi gagnvart miðstýringaráráttunni.

Allt bendir til lítils áhuga almennings á ESB-þingkosningunum og dræmrar kosningaþátttöku. Í áhugaleysinu endurspeglast vaxandi vantrú á að lýðræði megi sín nokkurs innan ESB, þar fari embættismenn einfaldlega sínu fram og kæri sig kollótta um lögmæti sitt.Fyrir þjóðfélög og álfu sem vill vera fyrirmynd annarra í lýðræðislegum stjórnarháttum er ESB enginn gæðastimpill.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

Hvað ætlast ríkis­stjórnin fyrir?-Krafa um gagnsæi

Eitt af því, sem einkenndi vinnubrögð ríkis­stjórnar Samfylkingar og VG vegna ESB-mála var skortur á gagnsæi. Þótt sú ríkis­stjórn hefði uppi miklar yfirlýsingar um mikilvægi gagnsæis í stjórnar­háttum í lýðræðisríki lagði hún áherzlu á að iðka það ekki í stærstu málum þjóðar­innar.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS