Þær umræður, sem nú fara fram í aðiildarríkjum Evrópusambandsins og þá ekki sízt á evrusvæðinu um vandamál Grikkja og raunar ekki bara þeirra eru upplýsandi fyrir okkur Íslendinga. Miklar vangaveltur eru um að vandamál þeirra eigi eftir að breiðast út til Spánar, Portúgals og Ítalíu, Írlands og jafnvel Belgíu. Sumir kalla þennan vanda Miðjarðarhafsveiruna, sem breiðist hratt út.
Þegar bankarnir hrundu og efnahagur Íslendinga með var því haldið fram af mikilli ákefð af stuðningsmönnum aðildar Íslands að Evrópusambandinu, að hefðum við verið í ESB hefði þetta aldrei gerzt. Því var líka haldið fram, að eina leið okkar út úr ógöngunum væri að ganga í ESB og taka upp evru.
Umræðurnar um vanda Grikkja og annarra aðildarríkja ESB sýna, að það eitt að vera aðili að ESB dugar ekki til að koma í veg fyrir að þjóðir lendi í efnahagslegum ógöngum eins og við höfum gert og aðrar þjóðir hafa líka lent í. Ef sú röksemd ESB-sinna ætti sér einhverja stoð í veruleikanum stæðu Grikkir ekki frammi fyrir þjóðargjaldþroti seinni hluta maímánaðar og önnur fimm ríki ESB ættu ekki yfir höfði sér svipuð örlög.
Þá er spurningin, hvort eitthvað sé hæft í málflutningi ESB-sinna hér þess efnis, að evran sé eina leið okkar út úr þeim vanda, sem við erum í. Umræðurnar um Grikkland sýna, að vandi þeirra er einmitt sá að hafa tekið upp evruna. Ef þeir hefðu ekki gert það væru þeir ekki í þeirri spennutreyju, sem þeir nú eru í. Og þótt athyglin beinist þessa dagana sérstaklega að þætti evrunnar í vandamálum Grikkja er ljóst, að hið sama á við um hin ríkin fimm. Þess vegna eru nú byrjaðar umræður í Evrópu í fullri alvöru um, að evran muni ekki lifa þessa þróun mála af.
Í Wall Street Journal í morgun er vakin athygli á því, að vandamál Asíuríkjanna á tíunda áratug 20. aldarinnar var leystur að verulegu leyti með gengislækkun. Indónesar lækkuðu gengi síns gjaldmiðils um 83%, Thailand og Malasía um 40% og Suður-Kórea um 35%. Innan árs var hagvöxtur í þessum ríkjum kominn í gang á ný. Á árinu 1998 varð samdráttur í efnahagslífi Suður-Kóreu um 6,7%. Ári síðar var hagvöxtur orðinn 10,7%. Hið bandaríska dagblað segir, að flestir meti það svo, að gengislækkun viðkomandi gjaldmiðla hafi átt mikinn þátt í að ríkin náðu sér fljótt á strik á ný.
Þar með er ekki sagt, að gengislækkun eigin gjaldmiðilis mundi leysa allan vanda Grikkja en aðildin að evrunni gerir það að verkum, að þeir horfa til framtíðar, sem byggir á mjög strífum aðhaldsaðgerðum ár eftir ár.
Við Íslendingar þekkjum þetta vel. Lækkun á gengi krónunnar hefur verið mjög áhrifarík aðgerð til þess að draga úr neyzlu. Hún hefur að sjálfsögðu komið illa við afkomu heimila og fyrirtækja. En hún hefur stuðlað að því, að öll útflutningsstarfsemi stendur nú í blóma og við sjáum vonandi fram á hagvöxt á ný. Íslenzka krónan er því beinlínis að hjálpa okkur til þess að komast út úr afleiðingum bankahrunsins.
Fyrir utan þetta er athyglisvert fyrir okkur – í ljósi aðildarumsóknar Samfylkingarinnar – að fylgjast með umræðum um langtímaþróun Evrópusambandsins um þessar mundir. Það ríkja miklar efasemdir um framtíð ESB þessa dagana. Þær koma skýrt fram í grein í Financial Times sl. fimmtudag eftir Philip Stevens. Hann segir m.a.:
„Allt í einu er orðið auðvelt að sjá fyrir sér framtíð, sem byggist á því að sambandið sundrist. Ekki endilega að það klofni, þótt greiðslufall Grikkja gæti haft víðtækar afleiðingar- en kyrking, sem leiðir af því, að engin pólitísk forysta er til staðar.“
Sama viðhorf kom fram í grein í New York Times sl. fimmtudag, þar sem athygli er vakin á því að pólitísk forysta Evrópusambandsins hafi verið ósýnileg að undanförnu. Angela Merkel ætlaði að fresta óþægilegum aðgerðum fram yfir svæðisbundnar kosningar í Þýzkalandi 9. maí n.k. en gat það að sjálfsögðu ekki. En þá segja menn sem svo: Ef slíkar kosningar geta haft svo víðtæk áhrif innan Evrópusambandsins er ekki við góðu að búast. Einn af viðmæalendum blaðsins sagði: „Evrópusambandið kallar eftir því að kjósendur afsali þjóðum sínum hluta af fullveldi þeirra en getur svo ekki svarað vandamálum þeirra, þegar þau koma upp.“
Hvernig dettur einhverjum Íslendingi í hug að það geti hentað hagsmunum Íslands að fara á kaf ofan í þennan grautarpott?
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.