Laugardagurinn 6. mars 2021

1. maí-ASÍ-ESB


Styrmir Gunnarsson
1. maí 2010 klukkan 11:15

Það er ríki ástæða til að spyrja þeirrar spurningar, einmitt í dag, 1. maí á hátíðisdegi verkalýðsins, hvenær Alþýðusamband Íslands ætli að snúa frá villu síns vegar og taka upp baráttu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu í stað þess að berjast fyrir slíkri aðild.

Hagmunum hverra er ASÍ-forystan að þjóna með þessari baráttu? Atvinnuleysi er stórfellt og vaxandi vandamál innan ESB. Almennt fer atvinnuleysi vaxandi, þótt sú þróun sé mismunandi eftir ríkjum. Einna verst er ástandið á Spáni, þar sem almennt atvinnuleysi er komið yfir 20% eins og sagt hefur verið frá hér á Evrópuvaktinni og um 40% meðal ungs fólks, sem þýðir að nánast annar hver ungur Spánverji er atvinnulaus.

Þær aðhaldaaðgerðir, sem nú er verið að efna til í Grikklandi munu auka atvinnuleysi þar mjög. Meginástæðan fyrir því hve hart er fram gengið í Grikklandi er sú staðreynd að ríkið er á evrusvæðinu.

Hvaða hugsanlegir hagsmunir geta verið í því fólgnir fyrir launþega á Íslandi, að við göngum inn í Evrópusambandið og tökum upp evruna, þegar það er fyrirsjáanlegt hverjar afleiðingarnar verða? Af hverju vill ASÍ-forystan hneppa Íslendinga og þá ekki sízt íslenzka launþega í þá spennitreyju, sem aðild að ESB og evrusvæðinu mundi setja okkur í?

Það er orðið alveg ljóst, að þau efnahagslegu viðmið, sem evran byggir á byggja fyrst og fremst á þýzkum hagsmunum eins og ósköp eðlilegt er miðað við stærð Þýzkalands í efnahag ESB. En það er ekki þar með sagt, að þau viðmið henti öllum öðrum.

Því miður er ekki hægt að sjá nokkur önnur rök fyrir afstöðu ASÍ en þau, að samtökin séu að þjóna flokkspólitískum sjónarmiðum Samfylkingarinnar. Með því er Alþýðusamband Íslands auðvitað að hverfa marga áratugi aftur í tímann til þeirra ára, þegar verkalýðshreyfingin var pólitískt tæki Sameiningarflokks alþýðu- Sósíalistaflokks og þar áður Alþýðuflokks.

En jafnvel þótt Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hafi áhuga á að styðja Samfylkinguna er ekki þar með sagt, að það henti tugþúsundum félagsmanna verkalýðsfélaganna á Íslandi.

Þess vegna er tími til kominn að aðrir forystumenn verkalýðsfélaga á Íslandi rísi upp gegn þessar pólitísku misnotkun á verkalýðshreyfingunni og beini henni á ný í þann farveg, að hún vinni að hagsmunum launþega en ekki pólitískum hagsmunum eins flokks.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS