Laugardagurinn 28. maí 2022

Áhlaupi spákaupmanna hrint en...

Lánstraust eykst ekki með auknum skuldum


Styrmir Gunnarsson
11. maí 2010 klukkan 07:02

Evrópusambandsríkin náðu afgerandi árangri í gær með risavöxnum aðgerðum þeirra og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til styrktar evrunni og til þess að hrinda áhlaupi spákaupmanna á þau evruríki, sem hafa staðið veikast efnahagslega. Þessi árangur kom fram í því að evran styrktist gagnvart dollar, hlutabréf hækkuðu í verði um allan heim og þá ekki sízt í ESB-ríkjunum og skuldatryggingaálag á þau ríki, sem stóðu höllum fæti lækkaði. Eftir því sem leið á daginn dró hins vegar eitthvað úr styrk evrunnar. Olía hækkaði í verði og gull lækkaði.

Viðtökur við aðgerðum ESB og AGS voru yfirleitt góðar en stöku efasemdarraddir heyrðust eftir sem áður og þeim fjölgaði í morgun. Einn sérfræðingur í fjármálum sagði í samtali við Wall Street Journal: „Það er ekki hægt að auka lánstraust ríkis, sem getur ekki staðið undir skuldum sínum með því að auka skuldir þess. Ef ESB lánar Grikkjum meiri peninga aukast skuldir ríkisins. Vextir af viðbótarlánum, hverjir sem þeir verða auka fjárlagahallann. Kostnaður við að greiða af skuldunum eykst. Einhvern tíma í framtíðinni verður að borga skuldirnar“.

Gengi sterlingspundsins styrktist fram eftir degi í gær en veiktist aftur vegna óvissu um stjórnarmyndun í Bretlandi.

Einn af greinarhöfundum WSJ sagði að Evrópusambandið hefði unnið sér tíma með aðgerðunum en sá tími væri ekki endalaus. Of mörg evruríki yrðu að búa við stefnu í peningamálum, sem þau gætu ekki staðið undir. Þess vegna væri hin augljósa langtímalausn sú, að koma á sameiginlegri stjórn í efnahagsmálum og opinberum fjármálum, sem mundi eyða þeim mun, sem nú væri á milli ríkja, sem hefðu haldið vel á stjórn efnahagsmála sinna og hinna, sem hefðu lifað um efni fram.

Í New York Times var þetta orðað á þann veg, að það hefði verið lengt í kveikjuþræðinum en það logaði í honum eftir sem áður.

Annar þáttur málsins hefur haldið efasemdum vakandi. Vextir á millibankamarkaði lækkuðu í gær en þeir lækkuðu ekki mikið, sem sérfræðingar segja, að bendi til þess, að sú jákvæða þróun sem varð á fjármálamörkuðum í gær geti verið brothætt.

Fregnir herma, að fundur fjármálaráðherra ESB-ríkjanna hafi verið átakamikill. Sumir segja, að umræður hafi verið hreinskilnar. Aðrir að þær hafi verið stormasamar. Á fundinum hefur augljóslega verið þrýst á Spánverja og Portúgala að grípa til róttækari aðhaldsaðgerða. Sumir líta til Írlands sem fyrirmyndar um það, hvernig þessi ríki eigi að bregðast við vandamálum sínum.

Hér á Evrópuvaktinni var sú tilgáta sett fram í gær, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefði komið til sögunnar vegna þess, að Evrópusambandið eitt hefði ekki haft bolmagn í þessar aðgerðir. Sumir fréttaskýrendur segja hins vegar, að aðild AGS að þessum aðgerðum sé eins konar hótun gagnvart Spánverjum, Portúgölum og öðrum ríkjum í svipaðri stöðu. Þeir geti átt afskipti AGS yfir höfði sér ef þeir snúi ekki af villu síns vegar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS