Sama dag og ný ríkisstjórn sest að völdum í Bretlandi, samsteypustjórn íhaldsmanna og frjálslyndra, hrósa Frakkar sigri yfir Þjóðverjum í átökum um stjórn evru-mála innan vébanda Evrópusambandsins.
Ástæða er að tengja þetta tvennt saman, nýja ríkisstjórn í Bretlandi og átökin um evruna innan ESB. Líklegt er, að andstaða ríkisstjórnar Davids Camerons við, að Bretar taki upp evru, og stefna ríkisstjórnar hans um lögfestingu á því skilyrði, að ekki verði um frekara framsal á valdi frá Bretum til Evrópusambandsins án þjóðaratkvæðagreiðslu, verði til að styrkja tengsl Þjóðverja og Breta innan ESB.
Þótt Frakkar fagni sigri eftir niðurstöðuna í Brussel að kvöldi sunnudags 9. maí til varnar evrunni, af því að í samþykktinni hafi falist skref til sameiginlegrar stjórnar á fjárlagagerð evru-ríkja, hafa þýskir embættismenn haldið fast í fullyrðingar um, að þeir hafi haft frumkvæði við gerð þeirra texta, sem samþykktir voru og ekki beðið neinn ósigur þeirra vegna. Þjóðverjar telja sig ekki hafa framselt neitt af fjárlagavaldi sínu til framkvæmdastjórnar ESB eða ráðherraráðs þess.
Framkvæmdastjórn ESB kynnti miðvikudaginn 12.maí tillögur sínar um, að fulltrúar hennar færu yfir fjárlagafrumvörp aðildarríkja evru-landanna, áður en þjóðþing þeirra tækju þau til umræðu og afgreiðslu. Olli Rehn sagði, að tillögur framkvæmdastjórnarinnar næðu til allra ESB-ríkjanna, en tillagan varðandi fjárlagaeftirlið snerti evru-ríkin 16 meira en ríkin 11 utan evru-svæðisins.
Svíar hafa ekki tekið upp evru. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra, brást við tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar með því að lýsa undrun sinni yfir því, að tillagan, sem José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Olli Rehn, efnahagsmálastjóri innan framkvæmdastjórnarinnar, kynntu skyldi einnig eiga að ná þjóða, sem kynnu fótum sínum forráð við fjárlagagerð, eins og Svía.
Hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar koma ekki til framkvæmda, eigi þær að ná til ESB-ríkja í heild sinni, nema stofnsáttmála ESB verði breytt og fjárlagavaldið framselt að einhverlju leyti til Brussel. Ríkisstjórn Camerons hefur gefið svo afdráttarlaust fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna valdaframsals til Brussel, að hún yrði óhjákvæmileg, haldi Olli Rehn fast við tillögu sína.
Þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe komst að þeirri niðurstöðu, þegar Lissabon-sáttmálanum og aðild Þýskalands að honum var skotið til hans síðastliðið sumar, að þýska ríkisstjórnin yrði að taka ríkara tillit en áður til þýska þingsins vegna ESB-ákvarðana. Reyndi fyrst á lög, sem Þjóðverjar settu með vísan til niðurstöðu dómstólsins, þegar þýska þingið veitti á dögunum umsögn um ESB-aðildarumsókn Íslands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á undir högg að sækja vegna fjárstuðnings við Grikki til verndar evrunni. Þýska fjöldablaðið Bild Zeitung hefur ráðisit harkalega á Merkel og ríkisstjórn fyrir að leggja Grikkjum lið. Blaðið hefur nú hafið mikla herferð gegn hinum risavaxna evru-neyðarsjóði og þeim kvöðum, sem lagðar eru á Þjóðverja vegna hans. Þriðjudaginn 11. maí sagði blaðið, að „öryggis-fallhlífin“ fyrir evruna væri „lokaglæpur“ í þágu Evrópu. Lítur blaðið þannig á, að Þjóðverjar hafi lagt mikið í sölurnar fyrir evruna síðustu 10 ár, með aðhaldi í ríkisfjármálum og eftrilaunagreiðslum. Á sama tíma hafi aðrir leikið sér og eytt um efni á kostnað Þjóðverja. Með því að breyta ESB í „millifærslubandalag“ sé verið að leiða það til glötunar.
Sama dag og þessi herhvöt birtist í Bild Zeitung sagði Reiner Holznagel, framkvæmdastjóri félags þýskra skattgreiðenda, að ríkisstjórnin hefði komið aftan að félagsmönnum sínum. Það hefði komið þeim að óvörum, að ekkert annað væri til ráða en koma á fót þessum risasjóði með ábyrgð evrur-ríkjanna. Taldi hann þessar ákvarðanir verða Þjóðverjum dýrkeyptar.
Í Bild Zeitung segir, að þrír Frakkar hafi hneppt Merkel í gildru: Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, og Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir þrír hafi samið evru-björgunaráætlunina, á meðan Angela Merkel hafi tekið þátt í kosningabaráttu í Nordrhein-Westphalia. Allt hafi verið klappað og klár, þegar hún kom til fundar í Brussel að kvöldi föstusags 8. maí.
Pierre Lellouche, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði við franska blaðið Nouvel Observateur, að neyðaráætlunin í þágu evrunnar hafi í för með sér, að öll ríkin eigi mikið undir því,að einu sé bjargað frá glötun. Þess vegna verði fulltrúar þeirra að rétt til þess að kynna sér fjárreiður hvers einstaks evru-ríkis.
Meðal flokksmanna Angelu Merkel eru öflugustu talsmenn evrunnar í Þýskalandi. Þar er Helmut Kohl, fyrrverandi kanslara, í broddi fylkingar. Allt fráhvarf frá stuðningi við evruna verður erfitt fyrir Merkel innan flokks hennar. Hún kann því að fagna varfærni Breta undir forystu Camerons og hvetja til þess, að farið sé hægt við að innleiða ESB-fjárlagavald. Annað gæti fælt Breta enn frekar frá ESB. Nicola Sarkozy hefur annað viðhorf. Hann segir, að nú sé ekki annað en bíða, þar til Cameron fari sömu leið og forverar hans og lagi sig að kröfum ESB, það gerist að jafnaði fyrr en síðar.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.