Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Tímabær auglýsing ungra bænda um Evrópu­sambandsher


Björn Bjarnason
30. maí 2010 klukkan 11:43

Samtök ungra bænda birti auglýsingu í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 28. maí og má sjá mynd af henni með þessum pistli. Fyrirsögn hennar er: Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn! í Meginmáli segir:

„Hvað Evrópusambandsherinn varðar hefur lengi staðið til að koma honum á laggirnar. Fjölmargir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa lýst yfir stuðningi við þá hugmynd á liðnum árum og þegar er kominn vísir að slíkum her. Um er að ræða sérstakar hersveitir sem lúta stjórn sambandsins og ætlað er að geta brugðist hratt við hættum sem kunna að koma upp. Þá eru heimildir til stofnunar slíks hers í Stjórnarskrá Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálanum) sem tók gildi þann 1. desember á síðasta ári.“

Undir þessum texta stendur: Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, í ræðu sem hún flutti 13. maí sl. Þar fyrir neðan stendur heiti auglýsanda: Samtök ungra bænda.

Allt er efnislega rétt, sem segir um ESB-herinn í auglýsingunni. Hins vegar ætti að vera augljóst, þegar texti meginmáls er lesinn, að hann geti varla verið eftir Angelu Merkel eða úr ræðu hennar. Textinn er skýring á því, hvað stendur að baki orðinu Evrópusambandsher og væri með nokkrum ólíkindum, ef kanslari Þýskalands flytti slíkan alfræðibókartexta í ræðu.

Hitt er staðreynd, að hinn 13. maí síðastliðinn flutti Angela Merkel hátíðarræðu í Aachen í Þýskalandi, þegar Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, var sæmdur heiðursmerki, sem kennt er við Karlamagnús keisara og veitt er fyrir að standa glæsilegan vörð um Evrópuhugsjónina. Vel var fylgst með ræðu Merkel, enda hafði hún nýverið tekið þátt í leiðtogafundi evru-landanna í Brussel, þar sem sagt var, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti hefði snúið upp á handlegginn á henni til að knýja hana til þátttöku í bjrögnaraðgerðum í þágu evrunnar.

Í ræðu sinni vék Merkel að vanda evrunnar og áréttaði þá skoðun, að henni yrði að bjarga, svo að Evrópuhugsjóninni yrði borgið. Auk þess yrði eftir þá björgun unnt að snúa sér að öðrum mikilvægum samrunaverkefnum í Evrópu, eins og því að stofna herafla undir merkjum Evrópusambandsins. Að Merkel hafi vikið að þessu, er óhrekjanlegt, en eitthvað hefur efni þess, sem hún sagði, skolast til í auglýsingu Samtaka ungra bænda.

Texti auglýsingarinnar hefði verið kórréttur, ef þar hefði staðið, að hinn 13. maí hefði Angela Merkel hvatt til þess, að stefnt yrði að ESB-heraflanum. Síðan hefði meginmál auglýsingarinnar komið sem skýring á því, hvað felst í hugtakinu „Evrópusambandsher“ og á hvaða lagagrunni yfirlýsingar leiðtoga ESB-ríkja um heraflann byggjast.

Full ástæða er til að minna Íslendinga á, hvað fyrir Evrópusambandinu og forystumönnum þess vakir í þessum efnum. Í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá 24. febrúar 2010 vegna aðildarumsóknar Íslands, sem lögð hefur verið fyrir leiðtogaráð ESB-ríkjanna, er þetta niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar:

„Ísland ætti að vera reiðubúið til að taka fullan og virkan þátt í sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum og stefnu Sambandsins í öryggis- og varnarmálum sem og að vera fært um að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja aðild á þessum sviðum.“

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart, að utanríkisráðuneytið hafi ekki látið svo lítið að skýra, hvað felst í þessu mati framkvæmdastjórnarinnar og engar opinberar umræður hafa orðið um það að frumkvæði stjórnvalda frekar en annað í greiningarskýrslunni. Augljóst er hins vegar á viðbrögðum ESB-aðildarsinna, að undir bændur ýttu á veikan blett, þegar þeir vöktu máls á hervæðingu ESB. Um þann þátt gildir hið sama og aðra efnisþætti að því er aðild Íslands varðar: Íslendingar verða að sætta sig við ESB-reglur, ef þeir þurfa aðlögun að þeim, snýst hún um tíma en ekki efni.

Barónessa Ashton, utanríkisráðherra Evrópusmabandsins, fer með yfirstjórn öryggis- og varnarmála á vegum sambandsins. Í Lissabon-sáttmálanum er að finna ákvæði til að skilgreina valdsvið æðsta embættismanns ESB á þessu sviði betur og styrkja vald hans. Lissabon-sáttmálinn heimilar samhæfingu herafla aðildarríkjanna undi merkjum ESB, en þýski stjórnlagadómstóllinn hefur úrskurðað, að ekki megi senda þýska hermenn undir merkjum ESB til útlanda án samþykkis þýska þingsins.

Hér á landi hefur því verið haldið fram, að í Lissabon-sáttmálanum sé að finna ákvæði, sem heimili ESB-þjóðum að halda ekki úti herafla og er vísað til undanþágu fyrir Íra í því samhengi. Vafalaust telja einhverjir, að í þessari undanþágu felist, að Írar þurfi ekki að stofna her. Svo er ekki. Írar eru stoltir af herafla sínum. Hann nýtur virðingar fyrir aðild að friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Írar vilja geta haldið sjálfstæði sínu og hlutleysi til slíkra starfa, hvað sem líður ESB. Írska undanþágan segir ekkert um, hver sé eða verði staða Íslands gagnvart hernaðarlegum kröfum ESB. Það hefur einfaldlega ekki verið rætt til hlítar.

Hin almenna krafa ESB í sambandi við þennan þátt í aðlögunarferli Íslands er, að Íslendingar sætti sig við það, sem ákveðið hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins um viðkomandi mál. Í svörum utanríkisráðuneytisins við spurningum ESB frá haustini 2009 eru ekki neinir fyrirvarar af Íslands hálfu varðandi stefnu og ákvarðanir ESB í öryggis- og varnarmálum.

Því miður hefur utanríkisráðuneytið ekki beitt sér fyrir opinberum umræðum um þennan þátt í svörum sínum til ESB og ekki skýrt fyrir þjóðinni, hvað í raun felst í ESB-aðild, þegar litið er til utanríkis-, öryggis- og varnarmála. Óvissa um það efni er örugglega ein skýring þess, hvers vegna ESB-aðildarsinnar bregðast jafnilla við auglýsingu ungra bænda um Evrópusambandsherinn og birst hefur á bloggsíðum þeirra. Einn þessara bloggara er Guðmundur Gunnarsson, forystumaður rafiðnaðarmanna, sem sagði á vefsíðu sinni 28. maí, sama dag og auglýsingin birtist:

„Staðreyndin er sú að það eru engar hugmyndir uppi innan Evrópusambandsins um stofnun sameiginlegs hers í líkingu við her einstakra landa. Komið hefur verið á laggirnar hraðsveitum skipaðar hermönnum úr herjum aðildarlandanna til að stilla til friðar á átakasvæðum, en hverju aðildarlandi er það sjálfvald sett hvort þeir senda sína hermenn í þessar sveitir.“

Um þetta má segja í stuttu máli, að hraðlið ESB er myndað af hersveitum og í sjálfu sér breytir það ekki eðli herafla, hvernig honum er skipað í fylkingar. Markmið ESB er að búa þannig um hnúta, og Merkel áréttaði það í Aachen-ræðu sinni, að ESB sameinist í herstjórnarmálum á þann veg, að í nafni þess verði unnt að beita herafla, þegar fram líða stundir og þá með skömmum fyrirvara, ef hættuástand skapaðist.

Þegar allt er skoðað, sem sagt hefur verið um þessi mál, og lokamarkmið þeirra, sem stóðu að gerð og samþykkt Lissabon-sáttmálans, verður niðurstaðan sú, að túlkun ungra bænda með auglýsingu þeirra sé nær því, sem að er stefnt á vettvangi ESB en upphrópanir ESB-aðildarsinnanna, sem ávallt reyna að fegra allt til að myndin, sem við okkur Íslendingum blasi, laðis em flesta að ESB. Væri lokamarkiðið ekki það, sem ungu bændurnir nefndu, hefðu Írar ekki óskað eftir því, að sérstaða þeirra fengi að njóta sín að einhverju leyti, þar sem þeir eru ekki aðilar að NATO.

Hitt er síðan annað mál, að öryggissamstamstarf á vettvangi ESB snýst um fleira en þá þætti, þar sem herafla er beitt. Meðal annars um sameiginlega gæslu landamæra og sinnir varðskipið Ægir nú verkefni á vegum FRONTEX, landamærastofnunar Evrópu, undan vesturströnd Afríku til að fæla flóttafólk frá því að reyna að komast til Kanaríeyja.

Þá krefst aðild að ESB þess, að hér verið sett í lög heimildir til að stunda forvirkar rannsóknir. Í því felst að rannsaka mál, án þess að fyrir liggi grunur um, að afbrot hafi verið framið. Þegar ég ræddi þessi mál á sínum tíma og sagði, að hér væri um hefðbundin verkefni leyniþjónustu að ræða, ætlaði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, að ganga af göflunum. Nú liggur fyrir skýrsla um varnarmálastofnun, sem starfar á ábyrgð Össurar. Þar er sagt frá því, að á vegum þeirrar stofnunar starfi National Security Agency, sem líkist leyniþjónustum herja í NATO-ríkjunum. Ef til vill hefur utanríkisráðuneytið sannfært viðmælendur sína hjá ESB um, að með þeirri stofnun fullnægi Ísland kröfum ESB varðandi heimild til forvirkra rannsókna?

Auglýsing ungra bænda um Evrópusambandsherinn hefur beint athygli að þætti, sem nauðsynlegt er að ræða til hlítar eins og allt annað varðandi ESB-aðild Íslands. Utanríkisráðuneytið hefur sérstakar skyldur til að upplýsa þessa hlið ESB-aðildarinnar. Þeim skyldum hefur ráðuneytið ekki sinnt.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS