Að óbreyttu stefnir allt í að leiðtogar ESB-ríkja taki ákvörðun um það á fimmtudaginn kemur, 17. júní, að hefja formlegar viðræður við Ísland um aðild að Evrópusambandinu eða öllu heldur, að í haust hefjist aðlögunarferli Íslands að inngöngu í ESB, því að ekki er um raunverulegar samningaviðræður að ræða. Þvert á móti.
Á undanförnum vikum hafa verið misvísandi fréttir af því, hvort slík ákvörðun verði tekin á þessum fundi ESB-ríkjanna. Framan af var því haldið fram innan stjórnarflokkanna, að slík ákvörðun yrði ekki tekin en það hefur breytzt síðustu daga.
Athygli vekur, að ríkisstjórnin hefur engar upplýsingar gefið um þetta mál, hvorki Alþingi né íslenzku þjóðinni. Á netútgáfu Morgunblaðsins, mbl.is í morgun birtist frétt, sem byggð er á fréttum hollenzka útvarpsins, sem segir, að Hollendingar og Bretar hafi unnið að því á bak við tjöldin að greiðsla á svonefndri Icesave-skuld verði gerð að skilyrði fyrir viðræðum.
Á mbl.is segir ennfremur, að utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen telji skrýtið að íslenzk stjórnvöld vilji ræða aðild að ESB á sama tíma og þau vilji ekki ræða endurgreiðslu Icesave.
Mbl.is hefur eftir Reuters-fréttstofunni, að Hollendingar og Bretar muni ekki koma í veg fyrir aðildarviðræður við Ísland enda hafi þeir fengið tryggingu fyrir því, að Íslendingar standi við „fjárhagslegar skuldbindingar“ gagnvart ríkjunum tveimur. Og eftirfarandi er haft eftir William Hague, hinum nýja utanríkisráðherra Breta:
„En við viljum að það sé alveg á hreinu að þegar viðræðurnar hefjast að Ísland sé skuldbundið til þess að finna lausn á fjárhagslegum og lagalegum skyldum sínum, að standa við fjárhagslegar og lagalegar skuldbindingar sínar. Það er alveg ljóst.“
Það er lágmarkskrafa að ríkisstjórn Íslands geri þingi og þjóð grein fyrir þeim viðræðum, sem kunna að hafa farið fram síðustu daga og vikur á milli fulltrúa Íslands og fulltrúa Hollendinga og Breta eða ESB til undirbúnings leiðtogafundi ESB. Er þetta ekki ríkisstjórnin, sem hefur lofað gagnsæi í öllum sínum störfum?! Hafa fulltrúar íslenzku ríkisstjórnarinnar gefið Bretum og Hollendingum einhver loforð varðandi Icesave í tengslum við aðildarviðræður? Hafi það verið gert er augljóst, að þeir fulltrúar íslenzkra stjórnvalda hafa ekkert umboð til slíks.
Það má furðulegt teljast ef þeir þingmenn Vinstri grænna, sem eru andvígir aðild Íslands að ESB láti bjóða sér slík vinnubrögð og leynd um þau.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar eiga að sjálfsögðu að ganga eftir því við utanríkisráðherra áður en Alþingi fer í sumarfrí að hann upplýsi þing og þjóð um allar þær viðræður, sem kunna að hafa farið fram á milli þessara aðila síðustu daga og vikur.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.