Mánudagurinn 16. desember 2019

Um beint lýðræði innan flokka


Styrmir Gunnarsson
27. febrúar 2011 klukkan 11:18

Þótt flestir og nú allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi lengst af byggt stefnu sína á lýðræði og lýðræðislegum stjórnarháttum hefur lýðræðið og lýðræðisleg vinnubrögð innan þeirra verið með ýmsu móti. Það hefur að sjálfsögðu blómstrað í orði en ekki alltaf á borði. Að hluta til er skýringin sú, að formenn flokkanna hafa yfirleitt haft mikil völd innan þeirra og mótað stefnuna að langmestu leyti. Og oftast hafa þeir búið við mikla tryggð af hálfu flokksmanna sinna.

Nú kann þetta að vera breytast. Hugmyndin um að þjóðin sjálf taki ákvarðanir í meginmálum er að festa rætur og líklegt að hún verði kjarninn í nýrri stjórnskipan 21. aldarinnar á Íslandi. Og þá er eðlilegt að sú spurning vakni, hvort hið sama eigi ekki við um stjórnmálaflokkana, að almennir flokksmenn taki meiri þátt í stefnumótun þeirra en hingað til.

Auðvitað hafa forystumenn flokkanna alla tíð hlustað eftir röddum flokksmanna sinna. Áður fyrr fóru erindrekar flokkanna um landið til þess að tala við flokksmenn og stuðningsmenn og gáfu síðan skýrslur í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Nú eru samskiptin auðveldari með nýrri tækni og betri samgöngum, þannig að forystumenn hafa alla möguleika á að vita hvernig landið liggur hverju sinni. Engu að síður er það svo, að allir flokkar halda landsfundi á tveggja ára frestað. Á þá fundi eru kjörnir fulltrúar einstakra flokksfélaga, sem taka þátt í stefnumörkun. Þetta er fulltrúalýðræði innan flokkanna eins og á landsvísu.

Almennir flokksmenn eru viðkvæmir fyrir því, hvort á þá er hlustað. Þetta kom skýrt í ljós, þegar ágreiningur kom upp innan Sjálfstæðisflokksins á dögunum um þá ákvörðun flokksforystu og meirihluta þingflokks að styðja Icesave III. Á fundi Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins í Valhöll um málið var hann ítrekað spurður, hvort hann teldi þá ákvörðun samrýmast samþykktum landsfundar í júní 2010 um Icesave-málið. Skömmu seinna var haldinn fundur á sama stað á vegum Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Á þeim fundi var Ásbjörn Óttarsson, alþingismaður, ítrekað spurður sömu spurningar.

Nú eru flokksbundnir meðlimir Sjálfstæðisflokksins taldir allt að 50 þúsund. Það er mikill fjöldi. Hins vegar er svo komið að ný samskiptatækni auðveldar forystu flokksins mjög að eiga samskipti við allan þennan mikla fjölda og hlusta eftir röddum þessa fólks. Þannig getur Sjálfstæðisflokkurinn með skömmum fyrirvara kannað afstöðu flokksmanna til einstakra mála og tekið mið af þeim niðurstöðum við ákvarðanatöku.

Það kann að vísu ekki góðri lukku að stýra að stjórnmálaforingjar taki afstöðu til mála eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Til þeirra eru gerðar kröfur um að þeir fylgi sannfæringu sinni, þótt á móti blási. Og þeir verða að vera tilbúnir til þess að taka á sig óvinsældir og andbyr af þeim sökum.

En stjórnmálaflokkarnir verða að breyta vinnubrögðum sínum í samræmi við breyttan tíðarandi vilji þeir halda velli. Það er augljós tregða á Alþingi til þess að fylgja eftir þeim breyttu viðhorfum, sem eru að verða í samfélaginu og taka undir kröfur um þjóðaratkvæði í meginmálum. Að vísu segjast allir flokkarnir styðja þá hugmynd en þegar kemur að veruleikanum er sá stuðningur sjaldnast fyrir hendi.

Beint lýðræði er framtíðin á Íslandi. Sá stjórnmálaflokkur, sem tekur upp baráttu fyrir því muni njóta þess ríkulega í auknu kjörfylgi. Þess vegna hef ég lýst þeirri skoðun, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka upp baráttu fyrir beinu lýðræði.

Jafnframt er eðlilegt að flokkurinn taki upp á eigin vettvangi starfsaðferðir hins beina lýðræðis og gefi allt að 50 þúsund flokksbundnum meðlimum Sjálfstæðisflokksins tækifæri til að taka beinan þátt í stefnumörkun flokksins í einstökum málum, sem upp koma. Fyrstu skrefin í þá átt gætu verið að taka upp eins konar leiðbeinandi atkvæðagreiðslur meðal flokksmanna, sem ættu sinn sess í skipulagsreglum flokksins.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins þurfa ekki að líta svo á að með því sé verið að þrengja að stöðu þeirra. Þeir geta líka litið svo á að slíkar atkvæðagreiðslur geti orðið þeim til styrktar. Fyrir nokkrum dögum birti Fréttablaðið niðurstöður skoðanakönnunar, sem benti til þess að meirihluti stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins styddi Icesave III og þar með afstöðu flokksforystu og meirihluta þingflokks. Vel má vera að niðurstaðan hefði orðið önnur í könnun eða atkvæðagreiðslu innan flokksins sjálfs en alla vega gefur þessi könnun vísbendingu um að forysta flokksins hafi notið verulegs stuðnings við sína afstöðu, þótt veruleg andstaða hafi líka verið til staðar. Það liggur í augum uppi að slík niðurstaða í atkvæðagreiðslu meðal flokksbundinna Sjálfstæðismanna hefði verið forystu flokksins til styrktar í þeim sviptingum, sem urðu í kjölfar þeirrar ákvörðunar.

Með sama hætti er auðvitað ljóst að verði Icesave III samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu mun það verða ríkisstjórninni til styrktar og sömuleiðis þeim forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, sem tóku ákvörðun um að styðja þá niðurstöðu.

Þegar á allt þetta er litið er það mín skoðun, að það mundi verða Sjálfstæðisflokknum til framdráttar ef formaður, varaformaður, miðstjórn og þingflokkur beittu sér fyrir breytingum á skipulagsreglum flokksins í þessa veru. Víðtækar umræður innan flokks um allar hliðar málsins eru æskilegar sem undanfari slíkra breytinga en rökin fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn og raunar allir stjórnmálaflokkar taki upp aukið lýðræði á eigin vettvangi blasa við.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS