Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Timburmenn í Evrulandi


Víglundur Þorsteinsson
19. júlí 2011 klukkan 08:05

Vandamálin í Evrulandi vegna skuldavanda PIIGS landanna [Portúgal, Írland, Ítalía, Grikkland, Spánn] og reyndar fleiri en þeirra hafa ekki farið framhjá þeim sem fylgst hafa með Evrunni og þróun hennar þau rúmlega 12 ár síðan hún hóf göngu sína sem hin sameiginlega mynt.

Þessi vandamál opinberuðust í raun árið 2008 í bankahruninu með því að einstök ríki Evrópu gáfu út einhliða yfirlýsingar um ábyrgð þeirra á sínum bönkum án tillits til annarra ríkja í Evrubandalaginu. Angela Merkel reið á vaðið í október 2008 þegar hún tók ábyrgð á þýsku bönkunum einum en neitað Evruleiðtogunum um sameiginlega ábyrgðaryfirlýsingu. Gerið þið bara eins og ég sagði Merkel eftir þriggja funda lotu í október 2008 til að reyna að leysa sameiginlega úr krísunni þegar hún hafnaði endanlega sameiginlegri ábyrgð á bankakerfinu í Evrulandi.

Atburðirnir haustið 2008 undirstrikuðu það sem hafði verið ljóst frá upphafi en allir völdu að líta framhjá að þegar að kreppti var enginn sameiginlegur þrautavaragreiðandi í Evrulandi. Haustið 2008 hrundu því forsendurnar sem markaðirnir höfðu gefið sér um ávöxtunarkröfur á evrópskum ríkisskuldabréfum. Þær forsendur höfðu valdið því að vaxtamunurinn á milli til dæmis þýskra ríkisskuldabréfa og PIIGS landa tók ekki mið af raunverulegum undirliggjandi hagstærðum hvers ríkis fyrir sig. Þær höfðu byggt á tálsýn um að Evran væri eitt og áhættan vegna einstakra Evrulanda væri í meginatriðum söm.

Bankahrunið 2008 afhjúpaði þessa tálsýn og lánamarkaðir einstakra landa lokuðust. Um leið lauk veislunni hjá þeim. PIIGS og fleiri sem höfðu setið við allsnægtaborð alþjóðlegra lánamarkaða í tæplega tíu ár með þeim afleiðingum að þessi lönd þöndu út hagkerfi sín með ódýru erlendu lánsfé með tilheyrandi þensluverkjum og verðbólguþróun innanlands í hverju landi fyrir sig.

Allt hljómar þetta kunnuglega fyrir okkur Íslendinga en þrátt fyrir það að enga hefðum við Evruna náðum við í skottið á alþjóðlegu lánaveislunni með sambærilegum þensluáhrifum. Við vorum hinsvegar svo lánsöm að okkar ráðamenn sáu að okkar bankaskuldafjall var slíkt að ekki kom til greina að láta íslenska ríkið axla ábyrgð á því.

Í Evrulandi er málum allt öðruvísi farið. Þar er nú málum svo komið eftir lánaveisluna að ef eitthvert ríkjanna í Evrulandi fengi að komast upp með það sem við íslendingar leyfðum okkur myndu hinir evrópsku stórbankar hrynja saman á augabragði og draumurinn um Evruna verða að martröð með tilheyrandi stórkreppu og ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Kerfislægur vandi

Vandinn er kerfislægur segja evrópskir stjórnmálamenn í dag. Við verðum að leysa úr málum með því að samræma skattamál og ríkisfjármál ríkjanna og helst af öllu samþætta þau með því að stefna að sameiginlegu evrópsku sambandsríki segja þeir.

Þetta eru engin ný sannindi því þetta lá fyrir strax við upphaf Evrunnar og þeir Bundesbank stjórar Tietmeyer og Pöhl vöruðu einmitt Helmut Kohl, kanslara Þýskalands, sterklega við því að taka upp Evru án þess að samþætta ríkisfjármál allra evruríkjanna.

Kohl og Francois Mitterrand, forseti Frakklands, ákváðu að láta slíkar aðvaranir veg allrar veraldar og völdu að láta pólitíska skammtíma hagsmunum að ráða för.

Ákveðið var að láta „hin ströngu Maastricht-skilyrði“ fyrir upptöku nægja og öll sölumennskan snerist um það að þau myndu tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins til frambúðar Þýskaland og Frakkland kórónuðu síðan vitleysuna með því að veita sjálfum sér afslátt af Maastricht-skilyrðunum í upphafi og þar með var tónninn gefin og hin evruríkin sáu sér leik á borði með allskonar skapandi framsetningu á ríkisskuldum og fjárlagahalla.

Til Evrunnar var í raun stofnað með leikbrellum og blekkingum og mörkuðunum selt af ákafa og krafti að nú væri fæddur hinn mikli sameiginlegi gjaldmiðill sem í tímans rás myndi leysa dollar af hólmi sem heimsgjaldmiðillinn.

Í dag er látið sem nú þurfi aðeins að gera það sem Tietmeyer og Pöhl kölluðu eftir fyrir hálfum öðrum áratug að samþætta ríkisfjármálin með sameiginlegri skattastefnu og yfirþjóðlegu fjárveitingarvaldi. Það er gott svo langt sem það nær en það er ekki eini kerfislægi vandi evrunnar.

Aðal vandinn við upptöku Evru var og er sá að verið var að innleiða sameiginlegan gjaldmiðil í gjörólíkum hagkerfum með mjög mismunandi þjóðartekjur og framleiðnistig og gera ráð fyrir því að með „þýskri heraga hagstjórn“ mætti tryggja stöðugleika vöxt og velsæld í öllu Evrulandi.

Evrudraumurinn

Draumurinn var sá að þýska iðnaðarstórveldið með sínu ofursterka útflutningsmætti gæti borið uppi og fleytt áfram til velsældar öllum hinum. Slíkt hefði hugsanlega geta gengið upp ef þátttakendur í Evrulandi hefðu verið mun færri svo sem Frakkland og Ítalía sem einnig eiga öflugan iðnað sem löngum var að valda þjóðverjum angri með sífelldum gengislækkunum franka og líru á ýmsum tíma.

Þá hefði væntanlega einnig verið í lagi að þessum þrem hefðu fylgt þrjú til fjögur önnur lönd svo sem Holland, Luxembourg, Belgía og etv.Finnland.

Þessi lönd hefðu væntanlega átt möguleika í þessu „draumalandi sterku Evrunnar sem ætlað var að leysa dollar af hólmi. Það var hins vegar borin von að hin vanþróaðri lönd Evrulands eins og Grikkland, Spánn og Portúgal sem byggja sína afkomu á ferðamannaiðnaði, landbúnaði, sjávarútvegi og styrkjum úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins samanber einnig Írland, sem til viðbótar við mikla styrki markaði sér sérstöðu með lágum fyrirtækjasköttum til að laða til sín erlenda fjárfestingu, gætu búið við þennan sterka gjaldmiðil sem miðast fyrst og fremst við þarfir Þýskalands.

Þýskaland vill og þarfnast þess að búa við hátt gengi Evru til að tryggja sína alþjóðlegu samkeppnisstöðu. Það hljómar spánskt fyrir okkur Íslendinga sem erum því vanir að fella gengið til að laga okkar samkeppnisstöðu eftir „innlend veisluhöld“ og veiklaða hagstjórn frá einum tíma til annars.

Þýski hátækniiðnaðurinn sem er einn sá öflugasti í veröldinni er ekki lengur auðlindadrifinn iðnaður. Þýskaland er að miklu leyti búið að nýta upp sínar auðlindir til iðnframleiðslu nema kol til orkuframleiðslu og byggir því að mestu leyti á innflutningi hráefna og útvistun á vinnufrekum framleiðsluþáttum til láglaunalanda.

Sterk Evra (áður sterkt Mark) skiptir því sköpum hér. Hún tryggir mikinn kaupmátt Þjóðverja við innflutninginn og hámarkar arðinn af hugvitinu sem þjóðverjar eru í raun að flytja út í gegnum sinn hátækniiðnað. Hátækniiðnað sem þeir hafa markvisst þróað í aldanna rás og er afrakstur af framleiðsluþekkingu og vöruþróun úr styrjaldarrekstri þeirra í árhundruð.

Þýska efnahagsundrið eftir seinna stríð, sem kennt hefur verið við Ludwig Erhardt, er að þeir náðu að snúa þessari miklu þekkingu yfir í einhvern öflugasta hátækni útflutningsiðnað heims. Það er því borin von að lönd sem byggja sitt á ferðamannaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi geti búið við þann hágengisgjaldmiðil sem Evran er eða þá að land eins og Írland sem hefur markað sína sérstöðu með lágum sköttum gæti lifað það að fyrirtækjaskattar í Evrulandi yrðu þeir sömu í öllum ríkjunum. Ég tel það því aðeins tímaspursmál hvenær einstök lönd hverfa á brott úr þessu samstarfi og taka upp sína gömlu gjaldmiðla að nýju eða þá að reynt verður að skipta Evrulandi upp í tvö eða fleiri myntsvæði í tilraun til að skipuleggja undanhaldið.

Framtíðarlandið Evrópa

Í ljósi umræðunnar í dag í Evrulandi getur enginn velkst í vafa um það hvert er stefnt. Það er verið að segja það skýrt og afdráttarlaust að stefnt skuli að evrópsku sambandsríki með samþætta skattalöggjöf og fjárlög. Þeir sem taka munu þátt í því samstarfi munu því þurfa að afsala sér því sem eftir er af fullveldi hinna einstöku ríkja Evrulands og lúta því að heraga hagstjórn Þýskalands með háum sköttum og skammtaðri kaupmáttaraukningu ráði för.

Fyrir okkur Íslendinga er það hvorki eftirsóknarvert eða gerlegt nema með miklum breytingum hér innanlands. Okkar hagkerfi er svo gjörólíkt því þýska, nægir þar sérstaklega að nefna uppbyggingu skattkerfanna með ofurháum stighækkandi launasköttum í Þýskalandi til að fjármagna lífeyriskerfið og heilbrigðiskerfið. Ástand lífeyrismála hjá þeim er í raun þannig að þýskur lífeyrir er í raun greiddur í gegnum streymiskerfi og fjármagnaður með samtíma skattheimtu í gegnum háa launaskatta sem hátækniiðnaðurinn stendur undir. Í staðinn sleppur hann að mestu við að greiða tekjuskatta. Við Íslendingar höfum hinsvegar náð að koma okkar lífeyrismálum fyrir með sjóðssöfnun. Við höfum þó ekki náð því að öllu leyti því enn er hluti af lífeyri stjórnmálamanna og opinberra starfsmanna hér á landi fjármagnaður í gegnumstreymi af skattfé. Það má þó lagæra skipulega meða ca. 10-15 ára aðlögunarferli ef vilji er til. Nú þegar talað er um sameiginlega skattheimtu og samþætta ríkisfjármálastefnu í Evrulandi verður hægara um að tala en í að komast þegar samþætta þarf hin ólíku kerfi Evrulands með miklum pólitískum átökum og sumsstaðar óhjákvæmilegum þjáningum.

Timburmennirnir í Evrulandi hafa nú um stundarsakir kæft íslensku umræðuna um upptöku Evru og þeirra kosta sem því áttu að fylgja svo sem vegna löngunar í „hagsstjórnaraðhalds Evrulands“.

Það er nú afhjúpað að ekki var innistæða fyrir þeim væntingum. Hér gildir hið forkveðna. „Veldur hver á heldur“.

Það er ekki gjaldmiðilinn og hvað hann heitir sem skiptir máli um hagstjórnina og örlög og velferð eða vanda þjóða vegna hans. Það er hegðun þjóða með gjaldmiðilinn sem hér öllu veldur.

Mismunandi örlög þjóða í Evrulandi með sama gjaldmiðilinn undirstrika að það var mismunandi hegðun þjóðanna sem skipti sköpum ekki nafnið á gjaldmiðlinum. Framtíðarlandið sem bíður þessara þjóða er að annað hvort verða þau að afsala sér sínu fjárhagslega sjálfstæði og beygja sig undir þýsku „hagstjórnarspennitreyjuna“ eða þau verða að velja sér annað hlutskipti.

Þótt umræðan um upptöku Evru hafi hljóðnað hér á landi um stundarsakir er enn lifandi umræðan um að íslenska krónan sé ónýt og því sé nauðsynlegt að taka upp annan gjaldmiðil. Um krónuna gildir það sama og hér var sagt að ofan um Evruna. Það skiptir ekki máli hvað gjaldmiðilinn heitir heldur hvernig þeir sem hann nota hegða sér með hann.

Það er svo að pappírspeningar í sjálfu sér eru einskis virði. Það að við viljum taka við slíkum seðlum helgast af því hverjar væntingar við höfum til þeirra undirliggjandi verðmætasköpunar sem á að standa skil á greiðsluloforðinu sem seðilinn stendur fyrir. Þær væntingar eru oftast um verðgildið og helst vaxandi verðgildi en þær geta sömuleiðis verið væntingar um öryggi og skjól sem dollarinn þykir hafa veitt best hingað til ef til vill vegna þess að hernaðarmáttur Bandaríkjanna er meiri en annarra ríkja.

Það er ljóst að hér á Íslandi hefur trú á íslensku krónuna hrunið í kjölfar hins alþjóðlega bankahruns. Öllum er þó ljóst að ekki var það krónan sem olli því. Við eins og svo mörg önnur lönd gleymdum okkur í alþjóðlegu bankaveislunni sem haldin var á fyrstu árum 21 aldarinnar.

Hrunið á íslenskum hlutabréfamörkuðum og gengisfall krónunnar ollu hér gífurlegum bússifjum sem hefðu ekki þurft að vera jafn þung og raun ber vitni ef hér hefði verið öflug forysta í stjórnmálum með fumlaus tök.

En svo er ekki því miður. Sú stjórn sem við tók eftir búsáhaldabyltinguna hefur sýnt af sér reynsluleysi og vangetu sem hefur stækkað vandamálin og lengt kreppuna sem af hruninu hlaust langt umfram það sem þurft hefði að vera. Okkar hrunvandi verður ekki leystur með því að skipta um gjaldmiðil, hann þarf að leysa með íslenskri stefnumörkun til langs tíma um endurreisn hagkerfisins með nýju vaxtarskeiði sem eykur kaupmátt. Um leið þarf að leiðrétta þau helstu mistök sem hin reynslulausa vinstri stjórn hefur gert svo sem með því að afhenda erlendum kröfuhöfum þrjá banka og tvo af stærstu sparisjóðum landsins og klára sanngjarnar skuldaafskriftir og leiðréttingar. Það er mjög vel hægt. Til þess þarf þó forystumenn með kjark og þor.

Í lokagrein minni um þessi mál að sinni mun ég fjalla um mína framtíðarsýn og uppbyggingu atvinnuveganna við íslenska krónu.

Íslenska draumalandið sem er á færi okkar sjálfra að móta og þróa við einstæðar íslenskar aðstæður. Það draumaland grundvallast á íslensku sjálfstæði án uppgjafar og minnimáttarkenndar og langtímastefnumótun í atvinnu og menntamálum sem leggur grunn að auðlinda- og þekkingardrifnu íslensku hagkerfi. Meira um það í lokagrein minni í næsta mánuði.

Garðabæ 19.07 2011

Víglundur Þorsteinsson

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Víglundur Þorsteinsson lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Þá um sumarið starfaði hann hjá Ríkissaksóknara en í byrjun ágústmánaðar það ár tók hann við starfi sem framkvæmdastjóri Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár frá 1971-2010. Í stjórn Félags ísl. iðnrekenda og síðar formaður frá 1978-1992. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Verzlunarráðs Íslands um árabil og í framkvæmdastjórn VSÍ og varaformaður samtakanna um skeið. Víglundur átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1986 til 2007 og formaður og varaformaður um árabil. Hann átti sæti í bankaráði Íslandsbanka um 3ja ára skeið.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS