Eins og vikið var að í umfjöllun Evrópuvaktarinnar hinn 7. nóvember sl.skiptast tekjur Evrópusambandsins í megindráttum í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eigin tekjur ESB, þ.e. tollar af vörum, sem fluttar eru til aðildarríkjanna. Í öðru lagi ákveðið hlutfall af virðisaukaskatti, sem innheimtur er í aðildarríkjunum. Í þriðja lagi ákveðið hlutfall af þjóðartekjum aðildarríkjanna og í fjórða lagi aðrar tekjur.
Í greinargerð til aðalsamninganefndar frá samningahópi er að finna fróðlegt yfirlit yfir brúttóframlög Íslendinga skv. þessari flokkun til Evrópusambandsins ef um aðild væri að ræða. Þar segir:
„Ef til aðildar kemur yrði Ísland að taka upp samræmda tollskrá sambandsins í stað þess að innheimta tolla og innflutningsgjöld skv. eigin tollskrá. Framlag Íslands yrði 75% af þessum gjöldum eins og hjá aðildarríkjum sambandsins en 25% af gjöldunum halda ríkin til að mæta kostnaði við innheimtu. Á árinu 2009 var stofn vegna tolla og innflutningsgjalda gróflega um 3,68 milljarðar króna (þar með innifalið gjald vegna tollkvóta) og 75% af honum er um 2,76 milljarðar króna.“
Um virðisaukaskattinn segir:
„Almennt gildir að virðisaukaskattframlag er 0,3% af virðisaukaskattstofni en stofninn getur að hámarki verið 50% af þjóðartekjum. Á árinu 2009 var samræmdur virðisaukaskattstofn á Íslandi 535,3 milljarðar króna, sem er um 40% af þjóðartekjum. Miðað við 0,3% virðisaukaskattframlag hefði framlag Íslands verið 1,6 milljarður króna á árinu 2009.“
Um framlag sem hlutfall af þjóðartekjum segir:
„Mismuni á fjárveitingum sambandsins samkvæmt fjárlögum og mörkuðum tekjum er mætt með framlagi, sem tekur mið af þjóðartekjum. Öll ríki greiða þá sama hlutfall af þjóðartekjum og vegna fjárlaga 2009 var hlutfallið 0,7072%. Á árinu 2009 voru þjóðartekjur Íslands 1,221,1 milljarður króna og samkvæmt því hefði þjóðartekjuframlag Íslands verið 8,64 milljarðar króna.“
Loks eru svokallaðar „aðrar leiðréttingar“, sem nema 1,87 milljörðum króna.
Samtals hefði framlag Íslands numið 14,88 milljörðum króna miðað við árið 2009 ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu. Það eru 1,22% af þjóðartekjum. En jafnframt segir í greinargerðinni:
„Hins vegar er 0,85 milljarðar króna sérstök leiðrétting vegna áranna 2007 og 2008 sem aðeins er sett fram í fjárlögum ársins 2009. Ef þessi leiðrétting er undanskilin yrði fjárframlag Íslands 14,03 milljarðar eða um 1,15% af þjóðartekjum og er sú upphæð í samræmi við núverandi reglur sem gilda um fjárframlög einstakra ríkja.“
Samtals hefðu því brúttógreiðslur Íslands skv. þessum útreikningum numið liðlega 14 milljörðum króna. Til viðbótar er einn milljarður í peningum til Evrópska fjárfestingarbankans og 19 milljarðar í skuldbindingum eða brúttó greiðslur og skuldbindingar 34 milljarðar.
Síðan segir í greinargerðinnu til aðalsamninganefndar:
„Hluti þeirra fjárframlaga, sem greidd eru til ESB skila sér til baka til þjóðarbúsins í formi framlaga til landbúnaðar og til verkefna, sem snúa að dreifbýlisþróun, atvinnu- og byggðaþróun og rannsóknum.“
Þessar kostnaðartölur hafa lítið sem ekkert komið til umræðu hér á landi í tengslum við aðildarumsóknina. Tvennt vekur þó athygli.
Í fyrsta lagi er hér auðvitað um töluverð útgjöld og skuldbindingar að ræða. Líklegt er að þær eigi frekar eftir að aukast en minnka. Þannig er t.d. ljóst að ef við hefðum verið aðilar að ESB og evrunni undanfarin misseri hefðum við þurft að leggja fram verulega fjármuni í neyðarsjóð ESB. Og fyrirsjáanlegt er að aðildarríki evrunnar eigi eftir að taka á sig meiri skuldbindingar en orðið er vegna neyðarsjóðsins.
Í öðru lagi hlýtur sú spurning að vakna, hvers vegna við ættum að gerast aðilar að svona millifærslukerfi. Hvers vegna er betra að greiða styrki til landbúnaðar, dreifbýlisþróunar og atvinnuþróunar með milligöngu ESB en beint? Hvers vegna getur Samfylkingin, sem ekki þolir greiðslur til landbúnaðar hér, þolað þær með því að senda peningana fyrst til Brussel og fá þá aftur að frádregnum kostnaði?
Hvers vegna er betra að greiða styrki til vísindastarfsemi með milligöngu Brussel í stað þess að borga þá beint.?
Hvaða hagsmuni höfum við Íslendinga af svona millifærslukerfi. Það er ekki auðvelt að koma auga á það.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.