Eftir fund Alþýðusambands Íslands (ASÍ) að morgni þriðjudags 10. janúar um krónuna, hvort hún sé bölvun eða blessun, hefur skýrst að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, lítur á baráttu fyrir upptöku evru sem leið til að draga athygli frá ábyrgð verkalýðsforystunnar á hagstjórn hér á landi undanfarin ár og áratugi. Ræða hans, tölur og línurit, eiga að sanna að grasið sé grænna handan við girðinguna í hinu fyrirheitna landi ESB og evrunnar, komumst við þangað blasi við blóm í haga til allrar framtíðar.
Á fundinum kom fram að hið sama gildir um krónuna og um evruna, hún er tæki, það sem ræður úrslitum og skilur milli feigs og ófeigs er hvaða tökum er beitt við hagstjórnina. Styrkur eða fall gjaldmiðils ræðst af því hvaða ákvarðanir eru teknar um hagstjórn á svæðinu sem myntin þjónar. Að þessu leyti er krónan leiksoppur þeirra sem ráða mestu um hagstjórn á Íslandi. Alþýðusamband Íslands telur sig gegna mikilvægu hlutverki á því sviði. Hitt er síðan staðreynd að upptaka evru jafngildir ekki sjálfkrafa að hagstjórn batni eins og sannast hefur best í Grikklandi.
Af ræðu Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands, má ráða að seðlabankinn hafi tekið afstöðu með aðild að ESB. Hann sé þar í aðlögunarferli og mæli með aðild Íslands að ERM II, gengissamstarfinu sem er forsenda evru-aðildar. Þetta kemur raunar heim og saman við ályktanir af samtölum í Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í nóvember. Fór ekki á milli mála að þar litu menn þannig á að íslenskir seðlabankamenn ynnu að málum undir þeim formerkjum að aðildarstefna ríkisstjórnarinnar næði fram að ganga.
Arnór gaf til kynna að helst ættu pólitísk áhrif á mótun fjármála- og peningamálastefnunnar að verða sem minnst. Nefndi hann að ef til vill ætti að koma á fót „fjármálaráði“ það er ráði sérfræðinga á borð við peningastefnunefnd til að takmarka pólitísk áhrif á fjármál þjóðarinnar. Undir „pólitísk áhrif“ fellur að sjálfsögðu annað og meira en ákvarðanir stjórnmálamanna, hugtakið nær einnig til aðgerða og afstöðu aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal Alþýðusambands Íslands. Arnór telur að aginn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi beitt íslensk stjórnvöld við fjárlagagerð sé af hinu góða, reynslan af afskiptum sjóðsins bendi til þess að jákvætt verði að fara undir agavald þeirra sem leiða evru-samstarfið og þar spilli ekki nýr evru-samningur um ríkisfjármálasamstarf þar sem svigrúm þjóðþinga til töku ákvarðana á sviði ríkisfjármála verður þrengt.
Viðhorf aðstoðarseðlabankastjóra fellur alfarið að þeim sjónarmiðum sem ráða nú ferðinni innan evru-svæðisins, skuldakreppan verði ekki leyst nema með því að minnka pólitíska svigrúmið og auka vald teknókratanna, að minnsta kosti utan Berlínar og Parísar. Í þessum anda var Mario Monti gerður að forsætisráðherra Ítalíu og Lukas Papademos gerður að forsætisráðherra Grikklands. Þá lætur Seðlabanki Evrópu sífellt meira að sér kveða samtímis því sem hagfræðingum sem hallast að skilum á milli seðlabankastarfa og stjórnmálastarfa er ýtt til hliðar.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi seðlabankastjóri, sagði í viðtali á ÍNN 28. desember að hættulegra væri að flytja fyrrverandi seðlabankastjóra inn á vettvang stjórnmálanna án lýðræðislegs umboðs en að gera fyrrverandi stjórnmálamenn að seðlabankastjórum. Þróunin til aukins valds teknókrata á kostnað stjórnmálamanna er augljós innan evru-svæðisins og trú á ágæti hennar hefur skotið rótum í Seðlabanka Íslands.
Þing Alþýðusambands Íslands samþykkti í nóvember 2000 ályktun um að íslensk stjórnvöld skyldu hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB og taka upp evru til að tryggja betri og traustari grundvöll að þeim stöðguleika sem mótaður hafði verið með þjóðarsáttarsamningunum árið 1990, eins og það var orðað. Gylfi Arnbjörnsson segir að þetta hafi verið skýr valkostur við þá stefnu sem varð ofan á, það er að fleyta krónunni með verðbólgumarkmiði.
Frá árinu 2000 hefur Alþýðusamband Íslands fylgt annarri meginstefnu í gjaldmiðilsmálum en ríkisstjórn og alþingi. Skömmu fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2011 samþykktu 10 af 21 stjórnarmanni Samtaka atvinnulífsins (SA) að „leggjast gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka og aðildarviðræðum slitið“. Töldu þeir að leiða ætti ESB-viðræðurnar til lykta og leggja samning „fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu“.
Þá sendu Samtök atvinnulífsins frá sér fréttatilkynningu 17. nóvember 2011, sama dag og landsfundur sjálfstæðismanna hófst, undir fyrirsögninni: Krónan sökkvandi gjaldmiðill. Þar segir í upphafi:
„Íslenska krónan hefur nú aðeins 0,05%, einn tvöþúsundasta, af því verðmæti sem hún hafði gagnvart dönsku krónunni árið 1920. Hún hefur því ekki verið fljótandi í eiginlegum skilningi heldur miklu frekar sökkvandi gjaldmiðill þar sem gengi hennar hefur jafnan farið lækkandi utan fastgengis á síðari hluta tíunda áratugarins og stutts tímabils á síðasta áratug þegar Seðlabankinn hækkaði vexti ótæpilega til þess að hækka gengið með þeim afleiðingum að það varð algjörlega óraunhæft.
Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99% gagnvart verði á vörum og þjónustu á lýðveldistímanum. Með öðrum orðum þá hækkaði verðlag sjö þúsund falt á tímabilinu 1945-2010. Því er ekki að undra að sú ályktun sé dregin að íslenska krónan sé lítt samkeppnishæfur gjaldmiðill.“
Gylfi Arnbjörnsson hefur einmitt vakið athygli á því með vísan til ofangreindra orða að SA hafi jafnvel gengið lengra en ASÍ í gagnrýni sinni á krónuna og sagt hana „sökkvandi gjaldmiðil“. Aðilar íslenska vinnumarkaðarins hafa gert upp við sig að krónan sé ekki á vetur setjandi. Séu forráðamenn ASÍ og SA samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að vinna að þessu sameiginlega markmiði við gerð kjarasamninga og stuðla að hagstjórn sem ýti undir rök þeirra sem vilja taka upp evru. Í báðum herbúðum eru menn þeirrar skoðunar að upptaka evru með ESB-aðild sé skynsamlegasta leiðin í gjaldmiðilsmálum.
Auk Gylfa Arnbjörnssonar og Arnórs Sighvatssonar sem töluðu fyrir hönd stofnana sem eiga beina aðild að hagstjórn þjóðarinnar fluttu tveir prófessorar ræður á fundi ASÍ um krónuna: Friðrik Már Baldursson, deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, talaði um muninn á því að taka upp gjaldmiðil einhliða eða taka upp evru með aðild að ESB og Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um kosti sveigjanlegs gjaldmiðils.
Friðrik Már taldi meiri áhættu felast í því að taka einhliða upp annan gjaldmiðil en með því að ganga til myntsamstarfs með evru og ESB-aðild þótt hann mælti í raun með hvorugu við núverandi aðstæður. Hann vék að óvissu á evru-svæðinu auk þess sem skuldahlutfall íslenska ríkisins væri um 120% af landsframleiðslu en mætti vera 60% miðað við Maastricht-skilyrðin. Tölur um þetta skuldahlutfall sem nefndar voru á fundinum voru ekki allar hinar sömu, Arnór Sighvatsson nefndi um 100% og vísaði þá til loka þessa árs, 2012. Þeir Arnór og Friðrik Már voru sammála um að hlutfallið mætti lækka á tiltölulega skömmum tíma með sölu eignarhluta ríkisins í bönkum og lækkun á gjaldeyrissjóði seðlabankans. Arnór sagði að hreinar skuldir næmu aðeins u.þ.b. 40% af
landsframleiðslu. Stór hluti skuldanna vlri tilkominn vegna mikils
tímabundins gjaldeyrisforða.
Ragnar Árnason taldi kosti sveigjanlegs gjaldmiðils augljósa fyrir okkur Íslendinga. Frumskylda stjórnvalda í atvinnumálum væri að skapa sem flestum störf. Ekki væri unnt að koma í veg fyrir kreppur en milda bæri áhrif þeirra og það yrði best gert áfram með því að nota krónuna sem tæki til þess og lækka gengi hennar þegar illa áraði, það auðveldaði aðlögun á kreppunni og flýtti því að komist yrði frá henni. Hann sagði að stærð þjóðar á bakvið sjálfstæða mynt réði ekki úrslitum heldur hagstjórnin að baki myntinni. Í heiminum mætti finna 180 ólíkar myntir og fjölmenni þjóða á bakvið einstakar myntir segði ekkert um gæði þeirra eins og sannaðist með svissneska frankanum með 7,8 milljón manna bakland eða norsku krónunni með 4,6 milljóna manna bakland.
Niðurstaðan eftir fundinn er að ekki er unnt að fella neinn endanlegan dóm um það hvort því fylgi bölvun eða blessun að búa við íslenska krónu. Ræður hver á heldur auk þess sem afstaðan mótast af því hvort menn vilja Ísland inn í ESB eða ekki. Til að bregða ljósi á þann þátt hefði þurft að kalla enn einn ræðumann á vettvang til að skýra fyrir fundarmönnum að fleira felst í evru-aðild en upptaka gjaldmiðils og forsendur hafa gjörbreyst frá því að ASÍ stóð að samþykkt sinni árið 2000. Maastricht-skilyrðin sem sett voru vegna evrunnar hafa einnig misst gildi sitt því að þau hafa verið höfð að engu.
Á fundi ASÍ var litið fram hjá hinum pólitíska þætti gjaldmiðilsmálanna og þar með ábyrgð samtakanna sjálfra á því hvernig hagstjórnin hefur leikið krónuna og hvað þau vilja á sig leggja til að bæta hana frekar en horfa yfir í garð nágrannans.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.