Laugardagurinn 27. febrúar 2021

ASÍ-ESB I: Eini aðili vinnu­markaðar, sem enn mælir með aðild að ESB


Styrmir Gunnarsson
17. september 2012 klukkan 12:00
ASÍ
Merki Alþýðusambands Íslands

Alþýðusamband Íslands er eini aðili vinnumarkaðarins, sem eftir stendur, sem enn mælir með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samtök atvinnulífsins hafa dregið sig í hlé sem virkur aðili að umræðum um aðild og Samtök iðnaðarins sömuleiðis enda ljóst að meirihluti félagsmanna þeirra samtaka er andvígur aðild. Almennar skoðanakannanir gefa sterka vísbendingu um að meirihluti félagsmanna í þeim launþegafélögum, sem standa að ASÍ séu andvígur þeirri stefnu, sem Alþýðusambandið rekur. Um það sagði vefmiðillinn Vinstrivaktin gegn ESB hinn 6. maí sl.:

„Undanfarna mánuði hafa kannanir sýnt að einungis liðlega fjórðungur kosningabærra manna vill að Ísland gangi í ESB...Það er því eins ljóst og tvisvar tveir eru fjórir að innan aðildarfélaga ASÍ er enginn meiri hluti fyrir því að troða Íslendingum inn í ESB, langt í frá.“

Hins vegar hefur engin könnun farið fram á því meðal félagsmanna aðildarfélaga ASÍ hver afstaða þeirra er, svo vitað sé og þaðan af síður almenn atkvæðagreiðsla meðal þeirra félagsmanna. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða að forysta ASÍ gangi til þessa verks umboðslaus, þótt yfirgnæfandi líkur séu á því að svo sé.

Í ljósi þessa er því ástæða til að skoða rök og sjónarmið Alþýðusambandsins í aðildarmálinu, sem að sjálfsögðu hefur mikil áhrif á félagsmenn verkalýðsfélaganna eins og landsmenn alla.

Í apríl 2009, fyrir rúmum þremur árum var sjónarmiðum ASÍ lýst í skjali, sem ber heitið:

Sýn ASÍ á Evrópusamvinnuna og samningsmarkmið í aðildarviðræðunum við ESB.

Í skjali þessu er vísað til umræðna á þingi Alþýðusambands Íslands árið 2000 um stöðu og þróun EES-samningsins og í samningum þess þings sagði:

„ASÍ telur því nauðsynlegt að styrkja þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu. Það getur aðeins gerzt með tvennum hætti; annað hvort með því að styrkja þátttöku okkar í gegnum EES-samninginn eða með beinni aðild að ESB. Styrking EES virðist vera fjarlægur pólitískur möguleiki.

Að mati ASÍ verður því að taka umræðuna um aðild að ESB á dagskrá. Þjóðin verður að fá að svara því, hvort hún vill taka þetta skref eða ekki. Til þess að það sé hægt verður að hefja þegar ítarlega umræðu þar sem samningsmarkmið okkar verða skilgreind. Þar gegnir ASÍ lykilhlutverki sem stærstu hagsmunasamtök launafólks á Íslandi. Umsókn Íslands um aðild að ESB hefur engan tilgang nema full alvara sé þar að baki og fyrir liggi upplýst samþykki þjóðarinnar.“

Það er athyglisvert að í þessari samþykkt ASÍ-þings er talað um „upplýst samþykki þjóðarinnar“ fyrir aðildarumsókn á þann veg, að erfitt er að skilja öðru vísi en svo, að ASÍ-þing árið 2000 hafi gengið út frá því að þjóðin yrði spurð, hvort hún vildi sækja um aðild að ASÍ. Það var ekki gert, eins og kunnugt er, vegna þess að tillaga um slíkt var felld á Alþingi sumarið 2009 og umsóknin lögð fram í krafti samþykkis meirihluta Alþingis eins.

Ársfundur ASÍ árið 2002 ítrekaði svo þá stefnu að sækja ætti um aðild að ESB.

Í fyrrnefndu skjali um sýn ASÍ á málið er vísað til samþykktar ársfundar ASÍ í október 2008 (sama mánuði og bankarnir hrundu og efnahagur þjóðarinnar með) þar sem sagði:

„Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. ASÍ telur að yfirlýsing um að stefnt verði að aðild að evrópska myntsamstarfinu (ERM II) á næstu 2 árum myndi leggja mikilvægan grunn að þvi að skapa nauðsynlegan trúverðugleika fyrir meiri festu í skráningu krónunnar á næstu árum þangað til full aðild að Evrópska peningamálasamstarfinu (EMU) og upptaka evrunnar næðist.“

Í rökstuðningi fyrir þessari afstöðu Alþýðusambandsins segir m.a.:

„Það er óumdeilt að mati ASÍ að Evrópusamvinnan og þá sérstaklega samningurinn um evrópska efnahagssvæðið hefur þjónað hagsmunum Íslands vel. Jafnframt hefur ítrekað verið bent á, að frá því að EES-samningurinn var gerður hefur samstarf ríkja Evrópusambandsins dýpkað og ný viðfangsefni verið felld undir samvinnu þeirra...

...Í annan stað hafa átt sér stað miklar breytingar á valdauppbyggingu og ákvörðunarferlum innan ESB. Völd og áhrif þjóðkjörinna aðila, þingsins og ráðherraráðsins, hafa verið aukin á kostnað embættismanna....

...Félagsmálastefnan hvílir á þeirri grundvallarsýn, að aukin lífsgæði þegnanna og meiri jöfnuður sé eitt helzta markmið Evrópusamvinnunnar.“

Og ennfremur:

„Sú umræða gerist nú stöðugt áleitnari á vettvangi Evrópusambandsins að skilja verði betur á milli þeirra ríkja, sem valið hafa að vera aðilar að ESB og þeirra, sem standa fyrir utan, þegar kemur að samstarfi á ýmsum sviðum Evrópusamvinnunnar. Þannig er alls ekki gefið að Íslandi muni í framtíðinni standa til boða með sama hætti og áður samstarf á fjölmörgum sviðum, sem stendur utan kjarna EES-samningsins, s.s. ýmis konar samstarf á sviði mennta- og menningarmála, umhverfismála og félagsmála.“

Í beinu framhaldi af þessum samþykktum ársfunda ASÍ og þeim almenna rökstuðningi fyrir þeim samþykktum, sem hér hefur verið vísað til hefur ASÍ tekið virkan þátt í starfi svonefndra „samningahópa vegna aðildarviðræðna við ESB“ og tilnefnt fulltrúa sína í þessa samningahópa, sem eru níu talsins.

Rétt er að taka fram að Alþýðusambandið hefur áratugum saman tekið þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi, framan af aðallega við systursamtök sín á Norðurlöndum en síðan í almennu evrópsku samstarfi. Reyndar er það svo að ASÍ á samstarf við jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum á vettvangi SAMAK, sem er samstarfsnefnd alþýðusambandanna og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum.

Í næstu grein verður fjallað um þá breytingu, sem orðið hefur innan Evrópusambandsins almennt og evrusvæðisins sérstaklega frá því að þessi meginstefna ASÍ var mörkuð en ekki er að sjá að þær breytingar hafi haft nokkur áhrif á afstöðu ASÍ til aðildar Íslands að Evrópusambandinu eða að um þær breytingar hafi verið fjallað sérstaklega á vettvangi þess.

Til marks um það er ræða Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ á ársfundi þess hinn 26. október á sl. ári en þar sagði hann m.a.:

„Á ársfundinum okkar í október 2008 var sú stefna ASÍ samþykkt að umsókn um aðild Íslands að ESB og upptaka evru væri eina færa leiðin út úr þeim ógöngum, sem við værum í...Þessi afstaða hefur verið ítrekuð á öllum ársfundum síðan. Eftir að farið var í þessa vegferð hefur gengið ótrúlega hægt að móta samningsmarkmið okkar...Skýra forystu vantar hins vegar um það, hvers vegna við ættum að gerast aðilar að Evrópusambandinu og lítt verður vart við tilraun til þess að útskýra það fyrir þjóðinni... Við eigum ekki að láta skammtímavanda evru, dollars og jens villa okkur sýn...Við eigum ekki að hlusta á falsboðskap, við eigum ekki að fara úr öskunni í eldinn, við eigum einfaldlega að nota aðild að Evrópusambandinu sem það ankeri, sem við þurfum til þess að draga okkur upp úr þeim hjólförum, sem við erum í, þannig getum við náð tökum á skuldavanda heimilanna...“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS