Lítil klausa, sem ég skrifaði í Pottinn hér á Evrópuvaktinni hefur valdið einhverju uppnámi meðal Samfylkingarmanna. Þannig segir Skúli Helgason, alþm. Samfylkingar í viðtali við Smuguna:
„Styrmir boðar þarna pólitískar hreinsanir hjá Ríkisútvarpinu. Það eru mikil tíðindi, ef hann talar fyrir munn áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum.....Þetta endurspeglar ákveðið ofsóknaræði þarna í flokknum...Þetta endurspeglar það viðhorf þegar sjálfstæðismenn voru við völd að fylla eigi embættismannakerfið af þóknanlegu fólki. Það vekur upp hroll í sjálfu sér...“
Stefáni Ólafssyni, prófessor er líka misboðið. Hann segir í pistli á Eyjunni í dag:
„Sjálfstæðismenn eru nú orðnir vissir um að þeir nái meirihluta með Framsókn í kosningunum í vor. Valdafíkn og hroki þeirra eykst að sama skapi með hverjum degi. Dæmi um það er að finna í pistli, sem Styrmir Gunnarsson skrifar í dag en hann er fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og sérstakur aðgerðarstjóri Sjálfstæðisflokksins til margra áratuga.“
Þetta er einhver misskilningur hjá þeim Skúla og Stefáni, sem sjálfsagt er að leiðrétta. Ég er ekki í stöðu til að „boða“ eitt eða neitt. Ég gegni engum trúnaðarstöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og get ekki talað á einn eða annan hátt fyrir hans hönd. Ég er ekki í neinu sérsöku sambandi við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég er bara gamall maður út í bæ, sem hefur áhuga á þjóðfélagsmálum og fylgist með þeim úr fjarlægð!
Vegna þekkingar minnar á innviðum islenzks samfélags frá fyrri tíð er ég hins vegar að reyna að upplýsa hinn almenna borgara um hvað raunverulega er að gerast.
Það er staðreynd, að nú er embættismannakerfið í landinu, sem hefur innbyggða aðlögunarhæfni að búa sig undir breytingar í stjórnarráðinu. Það er ekkert nýtt. Það hefur gerzt við svipaðar aðstæður áratugum saman og mun gerast í framtíðinni. Þetta er ekki séreinkenni á íslenzka embættismannakerfinu. Þetta er einkenni á embættismannakerfum í flestum löndum, alla vega í okkar heimshluta.
Það er líka staðreynd, að í stjórnarandstöðuflokkunum eru menn farnir að huga að breytingum. Í hvert skipti sem stjórnarskipti verða lenda sumir embættismenn úti í kuldanum og aðrir inni í hlýjunni. Þetta vita þeir sjálfir og er ekkert nýtt.
Áratugum saman hefur Ríkisútvarpið legið undir ámæli fyrir að vera vilhallt í fréttaflutningi og umfjöllun um málefni líðandi stundar. Fyrir rúmlega sextíu árum hélt ég kröftuga ræðu um það heima hjá einum æskuvina minna og var þá bent á að heimilisfaðirinn, sem sat í stofunni og hlustaði á var Jón Magnússon, þáverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Ég hafði hægt um mig eftir það!
Það sama á við í þessu tilviki eins og í sambandi við embættismennina, að slík gagnrýni er ekki óþekkt í öðrum löndum. Um þessar mundir er Íhaldsflokkurinn í Bretlandi mjög gagnrýninn á BBC og telur að sú stofnun sé ekki óvilhöll í fréttaflutningi heldur þvert á móti höll undir sjónarmið Verkamannaflokksins.
Hvers vegna má fólkið í landinu ekki vita hvernig þetta er „á bak við tjöldin“?
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.