Þriðjudagurinn 16. ágúst 2022

Bólgan vex en hjaðnar samt


Víglundur Þorsteinsson
25. júlí 2013 klukkan 10:35

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira.

Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

Neysluvístölumælingin sem birt var í fyrradag lækkaði, JÁ LÆKKAÐI um 0.27 % á milli mánaða. Það sem er rétt í frásögninni um verðbólguna er að tólf mánaða bólgan mælt afturvirkt jókst úr 3.3 % í 3.8 % vegna mikils verðbólgutopps sl. sumar 2012 þegar gengisveikingin var í hámarki. Sú gengisveiking er löngu gengin til baka nú og innistæða í hagkerfinu fyrir frekari verðlækkunum.

Þessi aðferð við verðbólgumælingar segir allt um þá vitlausu kvarða sem Seðlabankinn kom sér upp árið 2001 þegar verðbólgumarkmiðin voru tekin upp. Það er stýrt í vaxtarófinu með því að horfa aftur fyrir sig en ekki fram á veginn.

Það er svona svipað og að keyra bíl áfram með því að horfa eingöngu í baksýnisspegilinn. En þetta voru „vísindin“ sem hagfræðingar bankans, þá og sem nú eru í forystu fyrir bankanum, studdust við.

Það má segja þeim til afsökunar að þeir voru þar ekki einir á báti. Á þessum tíma voru þeir í hópi með öðrum seðlabönkum heims. Það er helst að Federal Reserve, Seðlabanki Bandaríkjanna, hafi aldrei tekið þessa trú að fullu. Það er að minnsta kosti ljóst að þeir hafa örugglega yfirgefið hana í dag.

Seðlabanki Íslands er að verða einn á báti í þessari „gömlu trú á villuljósin“. Hér á landi eru stýrivextir bankans nú um 6 %, með ársverðbóguhraða innan við 1 %.

Það er því engin furða að hagkerfið sé að kólna hægt og bítandi. Þessir stýrivextir birtast í útlánavöxtum bankanna sem eru á bilinu 10 -13 % p.a. óverðtryggir. Það eru nafnvextir sem eru nokkurn veginn raunvextir í dag.

Á sama tíma er kostur á að taka verðtryggð lán með vexti sem eru á bilinu 4 - 5 % sem við þessar aðstæður eru einnig nokkurn veginn raunvextir. Raunvaxtamunurinn hér á milli í dag er um 5 - 6 % p.a. verðtryggðum lánunum í hag.

Ef ekki á illa að fara þarf Seðlabankinn nú að grípa til verulegrar vaxtalækkunar strax í ágúst. Hæfilegt væri að bankinn lækkaði vexti á einu bretti um 3 - 4 prósentustig .

Það er alveg ljóst að ef Már Guðmundsson og peningastefnunefndin reyna að rökstyðja aðgerðaleysi með hefðbundnum rökum svo sem vegna yfirvofandi hættu á launahækkunum í komandi kjarasamningum verða þeir að athlægi í ljósi ákvarðana kjararáðs og þess að taka við þeim kauphækkunum fyrir sig en segja „puplinum“ að éta ruðurnar.

Ef þeir vilja reyna að ná sambandi við raunveruleikann og slökkva villuljósin í „Svörtuloftum“ er kröftug vaxtalækkun eina leiðin þeirra til að ná jarðsambandi að nýju og reyna að öðlast tiltrú þjóðarinnar. Verðbólga er nú minni en í mörg ár. Uppsöfnuð þriggja mánaða verðbólga er nú 0.2 %. Mælt á árshraða þýðir það 0.9 % verðbólgu. Við erum núna þannig staddir að frekar en ekki má búast við verðhjöðnun á sumum sviðum svo sem almennrar neysluvöru.

Það er almælt svo sem sjá má til dæmis greiningu Yngva Harðarsonar hagfræðings í Mogga um daginn að nú sé innanlandsneyslunni haldið uppi af erlendum ferðamönnum. Þegar þar dregur úr í haust mun væntanlega „harðna á dalnum“.

Stóra fréttin fyrir skuldara er sú sem enginn hefur fjallað um enn að neysluvísitalan sem tekur gildi 01.09. nk. lækkar um 0.27 % og þar með skuldir landsmanna. Raunvextir verðtryggðra lána og nafnvextir þeirra fara nokkurn veginn saman í dag. Það er nokkuð sem almenningur þarf að gefa gaum nú þegar lífeyrssjóðir okkar bjóða lánskjör sem eru hagstæðari en nokkru sinni fyrr. Tækifærin til endurfjármögnunar heimilinna eru betri en nokkru sinni síðastliðna áratugi.

Hin stóra fréttin er að hagkerfið er í hægagangi. Það er nokkuð sem er áhyggjuefni fyrir nýja ríkisstjórn. Þegar þjóðin kemur úr sumarfríi er eins gott að hún verði klár á stefnunni og þeirri leiðsögn sem hún ætlar að veita fram á veginn. Þannig að leiðin fram veginn verði upp á við en ekki niður. Ef ekki kemur til þess að Seðlabankinn lækki vexti af sjálfsdáðum hlýtur það að koma til að ríkisstjórnin hjálpi bankanum í þeim efnum. Vaxtalækkun núna er helsta tækið til að reyna að örva innlenda fjárfestingu á meðan ekki tekst að ljúka samningum um erlenda.

Vaxtalækkun nú hefur þann viðbótarkost að hún er til þess fallin að styðja við gengi krónunnar vegna þeirrar undanþágu sem vogunarsjóðir og erlendir kröfuhafar njóta að mega flytja vextina af eignum sínum úr landi í erlendum gjaldeyri og stuðla að því markmiði ríkisstjórnarinnar að herða svo að erlendum kröfuhöfunum að þeir fallist á að yfirgefa landið með því að afhenda allar innlendar eignir þrotabúanna. Jafnframt að þeir semji um mikinn afslátt af svokölluðum jöklabréfum sem þeir eru hvort eð er að mestu búnir að endurheimta með miklum vaxtamun í upphafi fyrir hrun og háum innlendum vöxtum síðan.

Ríkisstjórnin þarf að koma til þings í september „fullvopnuð“ og reka af sér slyðruorðið sem á hana féll fyrir það að mæta illa undirbúin til sumarþings.

„Það kostar hugann að herða.“

Garðabæ 25.07. 2013

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Víglundur Þorsteinsson lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Þá um sumarið starfaði hann hjá Ríkissaksóknara en í byrjun ágústmánaðar það ár tók hann við starfi sem framkvæmdastjóri Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár frá 1971-2010. Í stjórn Félags ísl. iðnrekenda og síðar formaður frá 1978-1992. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Verzlunarráðs Íslands um árabil og í framkvæmdastjórn VSÍ og varaformaður samtakanna um skeið. Víglundur átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1986 til 2007 og formaður og varaformaður um árabil. Hann átti sæti í bankaráði Íslandsbanka um 3ja ára skeið.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS