Föstudagurinn 12. ágúst 2022

Þýzkaland og ESB II: Roosevelt vildi refsa Þýzkalandi og lama það


Styrmir Gunnarsson
7. desember 2013 klukkan 15:20

Skömmu áður en Adolf Hitler, þá kanslari Þýzkalands framdi sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi sínu í Berlín í lok apríl 1945 er eftirfarandi haft eftir honum:

Brandenborgarhliðið í Berlín.

„Með falli Ríkisins (Reich) og meðan beðið er eftir framsókn Asíuþjóða, Afríkumanna og kannski þjóðernissinna í Suður-Ameríku verða í heiminum aðeins tvö stórveldi, sem hafa getu til þess að ögra hvort öðru - Bandaríkin og Sovétríkin. Lögmál sögunnar og landafræðinnar munu knýja þessi tvö stórveldi til að láta reyna á styrkleika sinn, annað hvort hernaðarlegan eða efnahagslegan og hugmyndafræðilegan. Þessi sömu lögmál þýða að það verður óhjákvæmilegt að þessi tvö ríki gerist fjandmenn Evrópu. Og það er jafn víst að þessi tvö ríki munu fyrr eða síðar telja æskilegt að falast eftir stuðningi þeirrar einu stórþjóðar sem eftir verður í Evrópu en það er hið þýzka fólk.“

Brendan Simms, írski sagnfræðingurinn, sem vísað var til í fyrstu grein í þessum greinaflokki vitnar í þessi orð þýzka foringjans í bók sinni um þróun Evrópu frá 1453 fram á okkar daga. Eins og sjá má af ofangreindu hefur Hitler reynzt býsna sannspár.

Þremur árum síðar, á árinu 1948, sagði George Kennan, einn áhrifamesti diplómat Bandaríkjanna á árunum eftir heimsstyrjöldina síðari um stöðu Þýzkalands:

„Ef ekki verður af raunverulegu evrópsku ríkjabandalagi og ef Þýzkaland verður endurreist sem sterkt og sjálfstætt ríki getum við búizt við annarri tilraun til að festa í sessi þýzk yfirráð. Ef ekki verður af evrópsku ríkjabandalagi og Þýzkaland verður ekki endurreist sem sjálfstætt ríki erum við að kalla yfir okkur rússnesk yfirráð (Í Evrópu, innskot höf.)...Af þessum sökum er augljóst að tengsl Þýzkalands við önnur ríki í vesturhluta Evrópu verða að vera með þeim hætti að tryggja sjálfkrafa að ekki verði um að ræða samvizkulausa hagnýtingu á yfirburðastöðu Þýzkalands í fólksfjölda og í iðnaðar- og hernaðarframleiðslu.“

Árið 1995 kom út bók eftir Anatoli Dobrynin, sem var sendiherra Sovétríkjanna í Washington D.C. á árunum 1962-1986 eða í 24 ár. Þar segir sendiherrann:

„Þýzkaland og Berlín yfirskyggðu allt. Þýzkaland var að sjálfsögðu hin sögulegi jafnvægispunktur í kjarna Evrópu, svo og sögulegur óvinur okkar, ástæðan fyrir tveimur heimsstyrjöldum og nú helzti vígvöllur kalda stríðsins, þar sem Berlín var fremsta víglínan.“

Þessar tilvitnanir sýna að þrír menn úr ólíkum áttum, Adolf Hitler, George Kennan og Anatoly Dobrynin komast að sömu niðurstöðu um lykilstöðu Þýzkalands í Evrópu. Í því samhengi þarf kannski engum að koma á óvart að enn sé spurningin um stöðu Þýzkalands ofarlega í hugum manna í Evrópu.

Hvað átti að gera við þetta öfluga ríki sem lá í rúst í miðri Evrópu eftir að að því hafði verið sótt úr austri af Rauða her Sovétríkjanna og úr vestri og suðri af Bandaríkjamönnum, Bretum, Frjálsum Frökkum og öðrum bandamönnum Vesturveldanna?

Roosevelt Bandaríkjaforseti hafði skoðun á því að sögn Brendan Simms. Hann segir:

„ Roosevelt taldi að það ætti að refsa Þýzkalandi, skipta því upp og lama það með stríðsskaðabótum“

Samkvæmt Morgenthau-áætluninni (nefnd eftir Henry Mogenthau, bandarískum fjármálaráðherra) átti að leggja þýzkan iðnað í rúst og þar með eyðileggja bolmagn Þjóðverja til að heyja nýtt stríð. Bandarísk hernaðaryfirvöld lögðu jafnframt til að Þýzkalandi yrði skipt upp til þess að koma í veg fyrir hervæðingu þess á nýjan leik.

Um þetta var þó ekki eining innan bandaríska stjórnkerfisins að sögn írska sagnfræðingsins. Utanríkisráðuneytið í Washington var annarrar skoðunar. Cordell Hull vísaði til reynslu Bandaríkjamanna sjálfra af borgarastyrjöldinni, þegar það hefði tekið 75 ár að ná áttum. Á þeirri reynslu ætti að byggja við að hreinsa þýzku þjóðina af áhrifum nazismans. Friðarsamningar í anda Versalasamningsins mundu ekki auðvelda það verk. Að auki taldi utanríkisráðuneytið að forsenda fyrir því að uppbygging Evrópu að öðru leyti næði sér á strik væri að efnahagur Þjóðverja rétti við.

Churchill varaði líka við þeim hugmyndum, sem uppi voru í Washington um að lama Þýzkaland. Hann taldi að yrði Þjóðverjum refsað með þeim hætti mundu Sovétríkin á skömmum tíma sækja fram að ströndum Atlantshafs.

Niðurstaðan varð einhvers konar málamiðlun á milli þessara tveggja sjónarmiða. Þýzkalandi var skipt upp í fjögur hernámssvæði en þrjú þeirra auk Vestur-Berlínar urðu að lokum Sambandslýðveldið Þýzkaland eða Vestur-Þýzkaland. En hernámssvæði Sovétríkjanna varð að austur-þýzka alþýðulýðveldinu.

Vestur-Þýzkaland reis úr rústum og varð öflugt efnahagsveldi á ný og var að lokum tekið í sátt með aðild m.a. að Atlantshafsbandalaginu. Sögulegar sættir náðust á milli Þjóðverja og Frakka um stofnun vísis þess, (Kol- og stálbandalagið) sem nú heitir Evrópusamband.

Fjórum áratugum síðar urðu örlagarík þáttaskil í sögu þýzku þjóðarinnar, sem ekki voru jafn slétt og felld og ætla mátti á þeim tíma en þá var lagður grunnur að því að Þýzkaland risi á ný, sterkt og sameinað til fyrri stöðu. Um þau þáttaskil verður fjallað í næstu grein.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS