Nú þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá sameiningu þýzku ríkjanna með þeim hætti sem í stórum dráttum varð eins og lýst er í þriðju grein þessa greinaflokks er sameinað Þýzkaland orðið öflugasta ríki Evrópu á ný og að mati þeirra, sem vel þekkja til það ríki, sem í raun stjórni Evrópusambandinu.
Þetta hefur að sjálfsögðu ekki tekizt átakalaust. Þeir hlutar Þýzkalands, sem áður tilheyrðu Austur-Þýzkalandi hafa enn ekki náð jafnstöðu við þá hluta landsins, sem áður voru Vestur-Þýzkaland. Laun eru enn lægri í austurhlutanum, þar gætir enn erfiðra tilfinninga í garð fólks í vesturhlutanum og þeir sem voru þegnar Vestur-Þýzkalands láta kostnað við endurreisn Austur-Þýzkalands enn fara í taugarnar á sér.
Þó er ekki fráleitt að ætla að það aðhald sem Þjóðverjar þurftu að beita sjálfa sig til að endurreisa Austur-Þýzkaland hafi átt þátt í yfirburðastöðu þeirra nú. Til þess að standa undir endurreisn austurhlutans þurftu þeir að beita aga á meðan önnur aðildarríki evrunnar létu vaða á súðum.
Þróun Þýzkalands í þennan tæpan aldarfjórðung hefur að sjálfsögðu ekki bara snúizt um efnahagsmál. Þeir hafa í ljósi vaxandi styrkleika orðið að taka afstöðu til nýrrar pólitískrar stöðu. Þeir voru tregir til að hafa afskipti af átökunum á Balkanskaga, héldu sig í fjarlægð frá Íraksstríði Breta og Bandaríkjamanna og sköpuðu sér sérstöðu meðal vestrænna þjóða gagnvart Líbýu, eins og Bandaríkjamenn gerðu reyndar líka að hluta til. Á þetta bendir írski sagnfræðingurinn Brendan Simms í Evrópusögu sinni. Fram á þennan dag má segja að Þjóðverjar hafi frá stríðslokum verið tregir til að láta finna fyrir pólitískum styrkleika sínum en vísbendingar eru um að það sé að breytast.
Brendan Simms segir að grundvallarspurningin hafi alltaf verið sú, hvort Evrópa mundi sameinast - eða verið undir yfirráðum- eins sameinaðs afls. Hann bendir á ýmsar sögulegar tilvísanir um þetta efni, svo sem Napóleon og Hitler. En hann minnir líka á hina sósíalisku Útópiu Sovétríkjanna og Evrópusambandið í dag. Alltaf hafi spurningin snúizt um Þýzkaland vegna legu þess í hjarta Evrópu, vegna gífurlegs efnahagsstyrks og möguleika á hernaðarmætti og hann minnir á forystu Bismarcks. Síðan segir sagnfræðingurinn:
„Á meðan á kalda stríðinu stóð var baráttan um Þýzkaland kjarninn í átökum Sovétríkjanna og vestrænna þjóða.“
Og ástæða til að minna á að því spáði Adolf Hitler síðustu dagana, sem hann lifði í byrgi sínu í Berlín í apríl 1945 eins og áður hefur verið sagt frá. (Sjá II.grein)
Brendan Simms segir að kalda stríðið hafi byrjað í Þýzkalandi og að það hafi endað í Þýzkalandi. Rétt er að segja frá því að sú áherzla sem þessi írski sagnfræðingur leggur á lykilstöðu Þýzkalands er ekki óumdeild meðal sagnfræðinga samtímans í Evrópu.
Eftir sem áður vaknar þessi áleitna spurning: Ráða Þjóðverjar við sjálfa sig og þann pólitíska og efnahagslega styrkleika, sem þeir búa yfir gagnvart öðrum ríkjum evrusvæðisins og innan Evrópusambandsins? Kunna þeir betur nú að fara með það mikla vald sem þeir eru með í sínum höndum en áður?
Hvað segja forystumenn í Þýzkalandi sjálfir um það? Á heimasíðu Hjörleifs Guttormssonar, fyrrum alþingismanns og ráðherra (www.eldhorn.is/hjorleifur),er að finna í íslenzkri þýðingu hans útdrátt úr athyglisverðu viðtali þýzka vikuritsins Die Zeit við Helmut Schmidt, fyrrum kanslara og Joschka Fischer, fyrrum utanríkisráðherra. Þar segir:
„Helmut Schmidt: Ég verð svartsýnn, þegar ég virði fyrir mér núverandi stöðu Evrópusambandsins. Það stendur hvergi í Biblíunni að ESB lifi til loka 21. aldarinnar í núverandi mynd. Það kann að trosna sundur af því að oddvitar ríkisstjórna átta sig ekki á stöðunni.
Joschka Fischer: Evrópa er nú í erfiðustu kreppu frá upphafi evrópska sameiningar ferlisins og ég sé hvergi við upphaf 21. aldar hjá pólitískt leiðandi öflum aðildarríkja þess - fremst í flokki Þýzkaland og Frakkland - þann huglæga kraft sem þyrfti til að drífa áfram Evrópuhugmyndina eins og sjálfsagt þótti hjá þinni kynslóð, en einnig undir Kohl og Mitterand.“
Og nokkru síðar segir Schmidt:
„Frú Merkel myndi sennilega aldrei láta sér detta það í hug, sem var ráðandi hugsun hjá mér, í dag eins og fyrir fjörtíu árum: Ekkert án Frakklands! Það var fyrir mér sjálfsögð grunnhugsun: Ekkert án Frakklands!“
Með þessum orðum er hinn merki kanslari raunverulega að segja, að Þjóðverjar eigi ekkert að gera í málefnum Evrópu án þess að Frakkar séu því sammála. Það þýðir í raun að Frakkar ættu að hafa síðasta orðið, vera eins konar öryggisventill á Þýzkaland. Í ljósi sögunnar er þessi hugsun Helmut Schmidt afar skiljanleg.
Og þá komum við aftur að þessari spurningu: Er Þjóðverjum treystandi fyrir því mikla valdi, sem þeir hafa innan Evrópusambandsins?
Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB svarar þeirri spurningu í raun neitandi, þegar hann hvetur til bandalags ríkja í Suður-Evrópu með Frakklandi gegn ofurveldi Þýzkalands innan ESB. (Sjá I. grein)
Hefur sagan ekki sýnt aftur og aftur að Prodi hafi rétt fyrir sér og þá ekki bara að því er snýr að Þjóðverjum? Þeir sem fá of mikil völd í hendur fyllast að lokum af ofurhroka - og missa stjórn á sjálfum sér og öðrum. Við Íslendingar upplifðum þetta í hruninu, þegar nokkir bankar og fyrirtækjasamsteypur höfðu í raun haft hér öll völd í höndum í nokkur ár. Þeir aðilar misstu stjórn á sjálfum sér með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðina.
Þjóðverjar hafa byggt upp lýðræðisríki sem er til fyrirmyndar. En þótt ráðamenn í Þýzkalandi í dag kunni kannski að fara með þau miklu völd, sem þeir hafa í höndum er ekki þar með sagt að það muni eiga við um alla sem á eftir koma.
Þess vegna er mikilvægt að Evrópusambandinu takist að skapa meira valdajafnvægi á milli þeirra ríkja sem að því standa en nú er til staðar.
Enn einu sinni þurfa Evrópuríkin að koma böndum á Þjóðverja, þótt með öðrum hætti sé en áður.
Í fimmtu og síðustu grein verður fjallað um Ísland og stöðu þess í ljósi þeirrar þróunar innan Evrópusambandsins, sem hér hefur verið fjallað um.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.