Utanríkis- og öryggismál ESB og Ísland 1. grein
Samstarf Evrópusambandsríkjanna um utanríkis- öryggis- og varnarmál hefur nokkra sérstöðu í stjórnskipun sambandsins. Þar er annars vegar lögð áhersla á að hið yfirþjóðlega vald bindi ekki hendur þjóðríkjanna og hins vegar hefur verið komið á fót sameiginlegri utanríkisþjónustu ESB. Um þessi mál var fjallað í aðildarviðræðum Íslendinga við fulltrúa ESB og athugað hvort ágreiningur væri á milli aðila á þessu sviði. Niðurstaðan varð að svo væri ekki.
Hér verður í fimm greinum gerð grein fyrir samskiptum Íslands og ESB á þessu sviði en þó einkum með tilliti til öryggis- og varnarmála.
Innan Evrópusambandsins starfar utanríkisþjónusta, European External Action Service (EEAS). Núverandi stjórnandi hennar er Catherine Ashton sem á ensku ber titilinn High Representative for Foreign Affairs and Security Policy og hér er þýtt með orðunum utanríkis- og öryggismálastjóri ESB en í opinberri íslenskri þýðingu er embættið nefnt „æðsti talsmaður stefnu Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum“
Innan stjórnskipurits ESB hefur EEAS sjálfstæði gagnvart öðrum stofnunum, framkvæmdastjórn, ráðherraráði og þingi, en utanríkisþjónustunni ber að sjá til þess að stefna hennar og störf falli að heildarstefnu ESB. Til að stuðla að því er utanríkis- og öryggismálastjórinn einnig varaforseti framkvæmdastjórnar ESB og forseti utanríkismálaráðsins Foreign Affairs Council, sem er skipað utanríkisráðherrum aðildarríkjanna og eftir atvikum ráðherrum varnarmála, utanríkisviðskipta eða þróunarmála. EEAS tekur þátt í að undirbúa og skipuleggja þennan þátt í starfi utanríkis- og öryggismálastjórans.
Leiðtogar ESB-ríkjanna völdu Catherine Ashton í stöðu utanríkis- og öryggismálastjóra í nóvember 2009 en staðan varð formlega til með Lissabon-sáttmálanum sem tók gildi 1. desember 2009.
Í 27. grein samsteyptu útgáfu sáttmálans um Evrópusambandið og sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins er fjallað um hlutverk EEAS í 3. tl. þar sem segir:
„Æðsti talsmaðurinn skal njóta aðstoðar utanríkisþjónustu Evrópusambandsins við að sinna þeim skyldum sem í umboði hans felast. Þjónusta þessi skal eiga samvinnu við utanríkisþjónustu einstakra aðildarríkja og hjá henni skulu starfa opinberir starfsmenn viðeigandi deilda aðalskrifstofu ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, auk starfsmanna utanríkisþjónustu einstakra aðildarríkja sem lánaðir eru til starfa hjá henni. Kveðið skal á um skipulag og starfshætti utanríkisþjónustu Evrópusambandsins með ákvörðun ráðsins. Ráðið skal taka ákvörðun að tillögu æðsta talsmannsins, að höfðu samráði við Evrópuþingið og að fengnu samþykki framkvæmdastjórnarinnar.“
Hinn 26. júlí 2010 var formlega gengið frá stofnun EEAS og í desember voru fyrstu starfsmenn hinnar nýju utanríkisþjónustu ESB ráðnir og tók hún formlega til starfa í janúar 2011. Eins og af sáttmálatextanum má ráða varð að leita samkomulags ráðherraráðs, framkvæmdastjórnar og þings ESB áður en unnt var að koma EEAS á laggirnar. Þingmenn vildu hafa sitt að segja um hvernig staðið yrði að málum innan EEAS og ráðstöfun fjármuna í þágu utanríkisþjónustunnar. Hefur ágreiningi um það efni ekki verið rutt úr vegi og sæta umsvif þjónustunnar gagnrýni í mörgum aðildarríkjum.
Hinn 7. desember 2013 birti breska blaðið The Daily Telegraph á gagnrýninn hátt niðurstöður úttektar blaðamanna þess á umsvifum EEAS.
Þar kemur fram að um sé að ræða 140 sendiskrifstofur um heim allan og þær kosti samtals 420 milljónir punda (um 80 milljarða ISK). Alls starfi 3.417 hjá EEAS. 1.457 í Brussel og 1.960 í sendiskrifstofum utan Brussel. Breska blaðið telur að um 500 embættismanna EEAS hafi hærri árstekjur en breski forsætisráðherrann. Gunnlaun háttsetts stjórnarerindreka geti á ári numið 114.000 pundum (21,7 m. kr) en skattur sé aðeins 15% og við launin bætist síðan uppbætur sem starfa utan Brussel.
Breska blaðið vekur athygli á að aðeins 11 Bretar séu í hópi sendiherra EEAS víða um heim eða um 8% af heildinni og vitnar í háttsettan embættismann í bresku utanríkisþjónustunni sem hafi sagt breskri þingnefnd fyrr á árinu 2013 að Bretar stæðu frammi fyrir „mjög harðri“ samkeppni við að koma mönnum að hjá EEAS.
Þá kemur fram að EEAS hafi keypt 650 bifreiðar til opinberra afnota í skrifstofum sínum utan Brussel. Meðalverð á bifreið sé 21.000 pund (um 4 m. ISK) sé litið framhjá mun dýrari brynvörðum bifreiðum. Þá sýni opinberar tölur frá EEAS að stærsta sendinefnd sé í Ankara, höfuðborg Tyrklands, 140 manns.
Í byrjun desember 2013 ákvað EEAS að loka einni minnstu skrifstofu sinni, á Vanuatu, eyjaklasa í Suður-Kyrrahafi. Þessi skrifstofa var opnuð árið 1984, þegar framkvæmdastjórnin í Brussel fór með stjórn utanríkismála. Í The Daily Telegraph segir að á vegum þessarar skrifstofu hafi til dæmis verið varið fé til að kenna börnum krikket auk þess stuðningur hafi verið veittur til að reisa vindrafstöðvar og vinna lífrænt eldsneyti en í hvorugt hafi verið ráðist. Við lokun skrifstofunnar á Vanuatu flytjast starfsmenn hennar til Papua Nýju Gíneu og Solomon-eyja.
Gagnrýni á EEAS lýtur meðal annars að því að í raun sé ESB að ýta undir tvíverknað með því að opna sendiskrifstofur þar sem einstök aðildarríki hafi sendiráð eða ræðisskrifstofur. Lee Rotherham, höfundur bókarinnar The EU in a Nutshell segir við The Daily Telegraph:
„EEAS er dýr tvífari bresku utanríkisþjónustunnar, keppinautur og valdaræningi. Markmið EEAS og eftirlitslaus tilgangur er að ýta utanríkisþjónustum einstakra landa til hliðar. Þar sem EEAS hefur orðið til í Brussel hefur þjónustan eðlilega erft alla megingalla kerfisins. Þar vegur ekki síst þungt skortur á allri tilfinningu fyrir að verið er að eyða skattfé annarra.“
Stephen Booth, rannsóknastjóri við hugveituna Open Europe, segir:
„Ríkisstjórnir koma sér ekki alltaf saman um mikilvæg utanríkismálefni, EEAS hefur því takmarkað starfsumboð. Fyrir Breta sem halda þegar úti víðtæku neti sendiráða um heim allan er oft óljóst hvaða gagn er af EEAS. Hinu er þó ekki að leyna að sjálfri Catherine Ashton hefur tekist að vinna sig í meira álit en hún naut í fyrstu.
Almenna vandamálið sem tengist utanríkisþjónustu ESB er að hún getur auðveldlega leitt af sér dýran og ónauðsynlegan tvíverknað við hlið sendiráða einstakra landa og pólítískt eftirlit með henni er ákaflega veikt.“
Af hálfu EEAS er bent á að kostnaður við starfsemi utanríkisþjónustu ESB sé aðeins brot eða brotabrot af því sem kosti að halda úti utanríkisþjónustu einstakra ríka. EEAS gegni mikilvægu hlutverki við að gæta hagsmuna ESB, til dæmis vegna fjárstuðnings við einstök ríki eða verkefni innan þeirra. Þá hafi Catherine Ashton hvað eftir sýnt að miklu skipti að einn fulltrúi komi fram fyrir ESB eins og til dæmis hafi sannast í árangursríkum viðræðum um kjarnorkumál við Írani.
Þótt ESB hafi opnað sendiskrifstofu á Vanuatu árið 1984, megi marka það sem segir í The Daily Telegraph, var það ekki fyrr en í ársbyrjun 2010 sem ESB-sendiskrifstofa var opnuð á Íslandi á vefsíðu skrifstofunnar er hlutverkinu lýst á þennan hátt:
„Sendinefndin hefur stöðu sendiráðs og er fulltrúi Evrópusambandsins á Íslandi. Sendinefndin er ein af yfir 130 sendinefndum sem ESB starfrækir víðsvegar um heiminn, í löndum sem ekki eru aðilar að ESB. Sendinefndin var opnuð á Íslandi í janúar 2010 í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að ESB sumarið 2009. Fram að þeim tíma hafði sendinefnd ESB í Noregi haft umsjón með málefnum er tengdust samskiptum við Ísland.
Meginhlutverk sendinefndarinnar er að vera fulltrúi ESB gagnvart stjórnvöldum á Íslandi, miðla upplýsingum til höfuðstöðva ESB í Brussel um afstöðu og hagsmuni Íslands, undirbúa og liðka fyrir aðildarferli Íslands að ESB og veita almennum borgurum, félaga- og hagmunasamtökum, fjölmiðlum og öðrum, upplýsingar um ESB.“
Orðalagið „sendinefndin hefur stöðu sendiráðs“ ber með sér að starfsemi þessara fulltrúa ESB á Íslandi falli undir Vínarsamninginn um stjórnmálasamband milli ríkja. Um störf sendiráða gilda skýrar reglur meðal annars um skyldu þeirra til að standa utan við ágreining um innanlandsmál. Sendiráð ESB á Íslandi hefur dregist inn í umræður vegna afskipta sendiherranna af innanlandsmálum.
Í kosningabaráttunni fyrri hluta árs 2009 héldu sjálfstæðismenn því fram að sáttmálar ESB heimiluðu ESB að semja við ríki um upptöku evru þótt þau væru ekki innan ESB. Þannig hefði verið samið við örríki í Evrópu eins og Monakó, San Marínó, Andorra og Vatíkanið. Þá hefði evra verið tekin upp einhliða í Kosóvo. Var bent á þessi rök til mótvægis við rök ESB-aðildarsinna um að óhjákvæmilegt væri að ganga í ESB til að taka upp evru.
Á úrslitastundu fyrir kosningar birtu sjálfstæðismenn auglýsingar þar sem þetta sjónarmið var kynnt. Þá greip Percy Westerlund, sendiherra ESB gagnvart Íslandi með aðsetur í Osló, til þess óvænta ráðs að blanda sér í kosningabaráttuna og segja sjálfstæðismenn fara með rangt mál. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og eindreginn talsmaður ESB-aðildar gerði ekki athugasemd við þessa íhlutun ESB-sendiherrans þrátt fyrir áskoranir í þá veru.
Timo Summa tók við embætti sendiherra ESB á Íslandi af Westerlund á árinu 2009 og undirbjó flutning skrifstofunnar frá Osló til Reykjavíkur.
Timo Summa var í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins sakaður um að brjóta gegn 41. gr. Vínsarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja þar sem hann hefði blandað sér í umræður um viðkvæm íslensk innanríkismál og deilur um ESB-aðildarumsóknina. Þýski sendiherrann á Íslandi tók upp hanskann fyrir Summa í opnu bréfi til ritstjóra Morgunblaðsins. Summa hefði haft fulla heimild til þess að ræða aðildarmálið þar sem íslenska ríkisstjórnin hefði sótt um aðild að ESB og þannig skapað sendiherranum umboð til þátttöku í pólitískum umræðum á Íslandi.
Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, færði í apríl 2012 rök fyrir því að Timo Summa bryti gegn 41. grein Vínarsáttmálans um stjórnmálsamband ríkja með ferðum sínum um landið. Undraðist Tómas Ingi langlundargeð utanríkisráðherra Íslands gagnvart sendiherranum og augljósum brotum hans á alþjóðareglum. Tómas Ingi sagði í grein í Morgunblaðinu 2. apríl 2012:
„Sendiherra ESB, Timo Summa, fer hér um sveitir, á vegum Evrópustofu, sem hefur það að markmiði samkvæmt yfirlýsingu forstöðumanns stofunnar “að hafa ekki áhrif á umræðuna„. Sendiherrann segir á hinn bóginn, að hann ætli að “skapa„ umræðuna. Það virðist ekki vefjast fyrir neinum innan Evrópustofu að þessar yfirlýsingar ganga í kross.“
Evrópustofa var opnuð á Íslandi 21. janúar 2012. Hún er kostuð af stækkunardeild ESB fyrir milligöngu þýska fyrirtækisins Media Consulta og íslenska fyrirtækisins Athygli.is. Á landsfundi sínum í mars 2013 ályktaðu sjálfstæðismenn að loka bæri skrifstofunni. Boðað hefur verið að það verði gert á árinu 2014.
Tómas Ingi sagði að Timo Summa, sendiherra ESB, hagaði sér „eins og þingmaður í aðdraganda kosninga: hann heimsækir fyrirtæki, ræðir við atvinnurekendur og rekur áróður fyrir ESB“. Þá benti Tómas Ingi á að á síðum fjölmiðla mætti sjá, að Summa væri önnum kafinn við að leiðrétta það sem viðmælendur hans hefðu eftir honum.
Í grein sinni benti Tómas Ingi á skyldu sendiherra ESB til að virða í 41. grein Vínarsáttmálans, sem fjallar um stjórnmálasamband ríkja og skyldur sendiherra. Þar sé kveðið á um að sendinefndunum beri skylda til að blanda sér ekki í innri málefni þess ríkis, þar sem þær starfa og virða lög og reglur heimlandsins. Þessi regla hvíldi þyngst á sendiherranum sjálfum, þar eð ábyrgð hans væri mest. Timo Summa kæmi fram „við Íslendinga eins og þjóðin sé ekki sjálfstæð og fullvalda,“ sagði Tómas Ingi. Hann hefði að engu þær reglur sem ESB hefði undirgengist. Yfirmenn hans í Brussel virtust ekki hafa áhyggjur af því og væru því samábyrgir fyrir lögleysunni.
Tómas Ingi undraðist að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefði ekki „gert athugasemdir við inngrip sendiherrans í umræður um það stórpólitíska innanríkismál, sem aðildarumsókn um ESB er“. Þá hefðu „sakleysingjar í blaðamannastétt“ reynst ESB „nytsamlegir með því að telja ekkert athugavert við það, að sendiherrann fari um sveitir og reki áróður fyrir ESB-aðild. Er líklegt að þeir átti sig ekki fyllilega á því hver grundvöllur Vínarsáttmálans er“.
Grein sinni lauk Tómas Ingi Olrich á þessum orðum:
„Íslendingar horfa nú upp á það, að gagnvart lögleysu sendiherrans sýna íslensk stjórnvöld uppgjöf og undirgefni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra dreymir báða um að Ísland gangi í Evrópusambandið. Er auðmýkt þeirra lýsing á stöðu þjóðarinnar innan þess sem í þeirra augum er framtíðarlandið ESB?“
Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands á Íslandi, ritaði Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins, opið bréf þriðjudaginn 22. maí 2012 og tók upp hanskann fyrir Timo Summa. Þýski sendiherrann sagði að gagnrýni í leiðara Morgunblaðsins hinn 14. maí 2012 á framgöngu sendiherra ESB væri „óskiljanlegri og fjandsamlegri“ fyrir þá sök að hún komi fram í lýðræðisríki sem sé nátengt ESB, meðal annars með aðild að EES.
Leiðarinn sem þýski sendiherrann gerði að umtalsefni var ritaður í tilefni af rýrum svörum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við spurningum Ásmundar Einars Daðasonar alþingismanns til ráðherra um afskipti ESB af umræðum meðal Íslendinga um aðild að ESB. Leiðarhöfundurinn komst réttilega að þeirri niðurstöðu að í svari utanríkisráðherra við spurningum Ásmundar Einars væri ekki að finna nokkurn skilning á því að afskipti af innanlandsmálum sem lytu að Evrópusambandinu væru sérstaklega viðkvæm. Svör utanríkisráðherra væru út í hött sem sæjist til dæmis á því að þar segði að utanríkisráðuneytið teldi kynningarstarf Evrópusambandsins á Íslandi, hvort sem er af hálfu sendiherrans eða Evrópustofu, „til eðlilegs hluta af starfsemi sendiráða í samræmi við Vínarsamninginn um stjórnmálasamband og venjurétt þjóðarréttar“.
Hér verða ekki endurtekin dæmi sem liggja fyrir um óeðlilega framgöngu Timos Summa. Fyrir liggur staðfest að kynningarskrifstofa sem kostuð er af stækkunardeild ESB stendur að því að skipuleggja fundi hans um landið. Forstjóri íslensks undirverktaka við rekstur þessarar skrifstofu sagði þegar skýrt var frá að hún yrði opnuð að ekki yrði þar rekinn áróður í þágu ESB, það verkefni væri í höndum sendiráðs ESB undir stjórn Timos Summa.
Þýski sendiherrann á Íslandi tók ekki undir túlkun íslenska utanríkisráðuneytisins á Vínarsamningum. Sendiherrann sagði hins vegar að ásökunin um afskipti Summa af íslenskum innanríkismálum væri röng vegna þess að ESB-aðildarviðræðurnar væru ekki „innanríkismál, heldur hluti af utanríkisstefnu bæði Íslendinga og ESB.“ Hvor samningsaðili um sig hefði rétt „til þess að dreifa upplýsingum um sig og samningaviðræðurnar“. Timo Summa væri fulltrúi ESB, samtaka lýðræðisríkja, og honum bæri heimild til að tjá sig á opinberum vettvangi.
Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands, vakti á þennan hátt athygli Íslendinga á að með ESB-aðildarumsókninni hefði ESB fengið rétt til afskipta af innri málum og hefði sendiherra þess öðlast til að hlutast til um íslensk innanríkismál og stunda hér starfsemi sem væri víðtækari en heimilað væri í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband og samskipti ríkja.
Matthias Brinkmann varð yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi í nóvember 2013 þegar hann afhenti herra Ólafi Ragnari Grímssyni trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Á vefsíðu sendinefndar ESB á Íslandi segir Brinkmann:
„Ég vil gjarnan nýta þennan tíma til að upplýsa Íslendinga um Evrópusambandið og til að leggja áherslu á mikilvægi og dýpt sambandsins milli Íslands og ESB. Ísland og Evrópa tengjast ekki einungis sterkum menningarlegum og sögulegum böndum, heldur hefur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið reynst grunnur fyrir víðtækt samstarf á ýmsum sviðum. Ísland tekur til að mynda þátt í Schengen og hefur mikla reynslu af þátttöku í fjölbreyttum áætlunum ESB í gegnum EES; frá því árið 2000 hefur um 125 milljónum evra verið úthlutað í styrki til Íslands í gegnum áætlanir ESB. Þetta eru áætlanir sem tengjast meðal annars nýsköpun, rannsóknum, menntamálum, ungliðastarfi, almannavörnum, menningu og kvikmyndum. Þá má ekki gleyma mikilvægi samstarfs á norðurslóðum á sviði rannsókna og stefnumótunar, þar sem Ísland og ESB deila mikilvægum hagsmunum.“
Matthias Brinkmann kom til Íslands frá Ottawa þar sem hann var sendiherra ESB og gegndi stöðu yfirmanns sendinefndar ESB í Kanada. Hann hóf störf fyrir framkvæmdastjórn ESB árið 1983 og gegndi nokkrum stöðum á stjórnunarsviði vísinda, rannsókna og þróunar, og var lánaður til danska vísindaráðuneytisins frá 1987-1990. Árið 1990 tók hann til starfa hjá utanríkismáladeild framkvæmdastjórnar ESB, forvera EEAS, utanríkisþjónustu ESB. Frá 1992-1996 starfaði hann sem yfirmaður fjölmiðla- og upplýsingasviðs á skrifstofu framkvæmdastjórnarinnar í Stokkhólmi og síðar sem sendifulltrúi. Fram til ársins 2009 gætti hann meðal annars hagsmuna ESB við framkvæmd EES-samningsins og átti þá sam samskipti við íslenska embættismenn sem bera honum þá sögu að hann hafi sinnt starfi sínu af þýskri nákvæmni.
Áður en Matthias Brinkmann hóf störf fyrir framkvæmdastjórn ESB starfaði hann fyrir lögmannsstofu í Brussel og gegndi störfum fyrir erindreka Sameinuðu þjóðanna í flóttamannamálum í Genf áður en hann gerðist dómari við Stjórnsýsludómstól Hamborgar þar sem hann fjallaði einkum um mál útlendinga og innflytjenda.
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að skýr þáttaskil hafi orðið í afskiptum utanríkisþjónustu ESB af Íslandi eftir að ráðamenn í Brussel töldu að stjórnvöld á Íslandi höfðu tekið stefnu á aðild að ESB.
Percy Westerlund mat stöðuna rétt í kosningabaráttunni á Íslandi í apríl 2009 þegar hann taldi sig geta hlutast til um íslensk um íslensk málefni án þess að fá ákúrur frá utanríkisráðherra Íslands enda væri ráðherranum aðild að ESB efst í huga. Hið sama gerðist síðan eftir að Timo Summa hóf að kynna ágæti aðildar á fundum víða um land. Hann fór sínu fram í skjóli íslenska utanríkisráðuneytisins sem vann að aðild undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar.
Þegar Matthias Brinkmann tók formlega við embætti sendiherra á Íslandi í nóvember 2013 voru aðildarviðræðurnar úr sögunni og hann minntist ekki á þær þegar hann fjallaði um samskipti Íslands og ESB.
Íslenska utanríkisráðuneytið skaut skildi fyrur sendiherra ESB vorið 2012 þegar hann sætti ámæli fyrir afskipti af íslenskum innanlandsmálum. Hinn 3. desember 2013 birtist hins vegar reiðilegur tónn í garð ESB í tilkynningu utanríkisráðuneytisins:
„Skrifstofa stækkunarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) hefur einhliða og án fyrirvara tilkynnt ákvörðun um að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin mun segja samningum upp með tveggja mánaða fyrirvara og verða bréf þess efnis send á næstu dögum.
Í erindi sínu til íslenskra stjórnvalda vísar framkvæmdastjórnin til þess að IPA aðstoð við Ísland hafi verið ætlað að styðja við verkefni sem ráðast þyrfti í vegna áforma um aðild að ESB. Í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telji hún ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lýst vilja til þess að þau verkefni sem hafin eru verði leidd til lykta samkvæmt gerðum samningum. Um það virtist ríkja samstaða. […]
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu, sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að ESB myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.
Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.
Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg og ekki til þess fallin að styrkja samband aðila.“
Orðalagið í þessari tilkynningu utanríkisráðuneytisins endurspeglar mun kuldalegri samskipti þess við utanríkisþjónustu ESB en áður var. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var enn stóryrtari en ráðuneytið í fordæmingu sinni á ESB fyrir að skrúfa fyrir IPA-styrkina.
Hafi utanríkisþjónusta ESB, EEAS, talið sig öðlast rétt til að hlutast til um innri málefni Íslands með aðildarvænum utanríkisráðherra og aðildarumsókn frá Íslandi er sá tími liðinn. Á hinn bóginn verða íslensk stjórnvöld áfram að eiga náin samskipti við Evrópusambandið og utanríkisþjónustu þess eins og rakið verður í næstu greinum.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.