Föstudagurinn 12. ágúst 2022

Víglundur skrifar Ragnheiði þing­flokksformanni sjálfstæðis­manna


Víglundur Þorsteinsson
1. mars 2014 klukkan 15:44

Miðvikudaginn 26. febrúar sendi Víglundur Þorsteinsson bréf til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur formanns þingflokks sjálfstæðismanna. Þegar Víglundur hafði ekki fengið svar föstudaginn 28. febrúar fór hann þess á leit við Evrópuvaktina að bréfið birtist sem pistill á vefsíðunni. Fer bréfið hér á eftir.

Sæl Ragnheiður

Ég var að lesa frétt á Pressunni í morgun með frásögn af þínum ummælum í þinginu frá í gær. Af þeim ástæðum rita ég þér þetta bréf.

Umræðan um að láta reyna á sjávarútvegsmálin hefur staðið hjá okkur Íslendingum síðan 1989-1990 þegar umræðan hófst meðal atvinnurekenda í landinu um spurninguna EES eða EB eins og það hét þá. Á þeim tíma var ég einn af þeim fáum sem vildu ganga til aðildarviðræðna við EB. Það var við EB 12 ríkja sem hefði orðið 18 ríkja samband ef öll EFTA ríkin hefðu gengið inn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég myndi aldrei gefa þá yfirlýsingu í dag.

Til fróðleiks var ég á öndverðum meiði við sjávarútveginn þá en ekki í dag. Sá sem þá stóð þéttast með sjónarmiðum sjávarútvegsins í okkar flokki gegn aðild og EES var þáverandi formaður Þorsteinn Pálsson .

Á þessum tíma var framtíðarnefnd að störfum og þar birtist Davíð Oddson sem talsmaður þess að aðild yrði könnuð. Það hafa margir skipt um skoðun málinu síðan og er ekkert við því að segja. Við verðum hinsvegar sem sjálfstæðismenn að grundvalla okkar ákvaraðinir á bestu fáanlegu rökum í þessu máli á hverjum tíma en ekki óskhyggju. Við eftirlátum Samfylkingarkrötum óskhyggjuna.

Það voru ófáar ferðir sem ég leiddi íslenska atvinnurekendur til Brussel til að fræðast um þessi mál. Lenti þá gjarnan á mér að spyrja spurningarinnar endalausu. Getum við íslendingar ekki fengið aðild og haldið öllu okkar forræði yfir sjávarauðlindinni ? Rökin eru svo augljós bættum við gjarnan við. Við eigum allt undir þessari auðlind.

Svörin voru ávallt eins allan 10 . áratug síðustu aldar þegar ég var að leiða þessar Brusselferðir.

„Þið verðið að taka við regluverkinu, það er hægt að semja um tímabundna aðlögun . Á endanum verði þið að taka við regluverkinu í heild. Þið verði að skilja það að allir hafa einhverjar sérþarfir sambærilegar ykkar og regluverkið yrði þá gatað af undanþágum ef allar þjóðir ættu að fá sínar veigamestu sérþarfir undanþegnar. Það eru ástæðurnar en ekki að við séum eitthvað að agnúast út í ykkur sem þjóð eða ásælumst ykkar auðlindir.“

Þetta hefur ekki breyst þar á bæ samanber meðfylgjandi link http://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8

Ef eitthvað er þá hefur staða okkar til undanþága og aðildar að ESB versnað með Lissabonsáttmálanum . Þar munar mest um minna vægi neitunarvalds einstakra þjóða og þess að reglan um hlutfallslegan stöðugleika í sjávarútvegsmálum hefur veikst verulega með sáttmálanum og hægt að breyta henni með afli atkvæða.

Það er margt annað sem hefur breyst með Lissabonsáttmálanum enda tilgangur hans að þétta miðstjórnarvaldið í ESB og auka áhrif stórþjóða á kostnað hinna smærri. Það hættulegasta við þann sáttmála er að þessar reglur hans eru „hvikar“ og hægt verður að þróa þær og breyta til aukins miðstjórnarvalds með afli atkvæða í samræmi við megintilgang sáttmálans. Undirliggjandi hjá þeim í Brussel er að losa sig við „óþægindi lýðræðisins“.

Sem kjósandi þinn í okkar kjördæmi vil ég spyrja þig um það hvernig þú sjáir fyrir þér spurninguna sem spyrja á þjóðina um ?

Viltu ganga frá aðildarsamningi og leggja undir atkvæði ?

Eða telur þú að enn sé ekki búið að kíkja í pakkann til fulls ?

Ég tel að meðfylgjandi klippa [sjá krækju hér að ofan] af blaðamannafundi Össurar og Fule taki af allan vafa um það . Það er löngu ljóst hvað er í pakkanum. Ég held að það alvarlega við þetta nú bráðum 4ra ára aðildarferli okkar sé að allan tímann hefur fyrrverandi utanríkisráðherra logið að og blekkt þjóðina .

Ef til vill þingheim sömuleiðis. Þar held ég að sé mál að linni!

Spurningin sem svara þarf ef gengið yrði til þjóðaratkvæðis um ESB er ekki flókin. Hún hljóðar svona:

Vilt þú ganga í ESB þótt ekki fáist varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandsins?

Með bestu kveðjum

Víglundur Þorsteinsson

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Víglundur Þorsteinsson lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Þá um sumarið starfaði hann hjá Ríkissaksóknara en í byrjun ágústmánaðar það ár tók hann við starfi sem framkvæmdastjóri Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár frá 1971-2010. Í stjórn Félags ísl. iðnrekenda og síðar formaður frá 1978-1992. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Verzlunarráðs Íslands um árabil og í framkvæmdastjórn VSÍ og varaformaður samtakanna um skeið. Víglundur átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1986 til 2007 og formaður og varaformaður um árabil. Hann átti sæti í bankaráði Íslandsbanka um 3ja ára skeið.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS