Úrslit kosninganna til Evrópuþings hafa valdið miklu umróti eins og búast mátti við. Eitt af því sem helzt hefur einkennt viðbrögð við úrslitunum er að hin pólitíska yfirstétt í Evrópu lýsir miklum áhyggjum yfir framgangi flokka yzt á hægri kantinum og kallar þá ýmist öfgaflokka eða samsafn kynþáttahatara. Þetta á bæði við um umræður hér og annars staðar.
Þetta er þó ekki allt á einn veg.
Stefán Ólafsson,prófessor skrifar skynsamlega um úrslitin á eyjunni.is og segir m.a.:
„Ég held þó að villandi sé að tala um kynþáttahatur í þessu sambandi.“
Baldur Þórhallsson, prófessor , segir hins vegar í samtali við Vísi.is:
„Þetta er ekkert Pollapönk. Þessir hægri öfgaflokkar-þeir boða ekki frjálslyndi.“
Eru Ukip í Bretlandi, Þjóðfylkingin í Frakklandi og Danski þjóðarflokkurinn í Danmörku öfgaflokkar?
Þeir sem vilja halda því fram verða þá að horfast í augu við að þeir eru að dæma um og yfir fjórðung Dana, Breta og Frakka sem öfgamenn.
Er það frambærilegur málflutningur?
Varla.
Hitt fer ekki á milli mála að hin Gullna Dögun í Grikklandi er ný-fasistaflokkur og hefur haft lítið fyrir því að mótmæla því fyrr en að undanförnu. Staðreynd er hins vegar að sá flokkur fékk um 10% atkvæða í kosningunum og er nú stærri en PASOK sósíalistaflokkur Papandreou og Venizelos.
Og það fer heldur ekki á milli mála að NDP í Þýzkalandi er ný-nazistaflokkur en sá flokkur fékk nú einn þingmann kjörinn á Evrópuþingið, sem vekur athygli.
Það er nærtækara að lýsa þessum hægri flokkum, sem unnu svo mikla sigra í kosningunum til Evrópuþingsins sem flokkum sem hafa snúizt gegn hinum ráðandi öflum, hinni pólitísku yfirstétt, elítunni, sem telur sig útvalda til að stjórna.
Þetta eru flokkar sem ögra þeim sem ráða sem flokkar yzt til vinstri hafa lengst af haft einkarétt á að gera.
Er það endilega neikvætt að slíkir flokkar komi fram á hægri kantinum?
Sumir mundu telja að það sé beinlínis nauðsynlegt.
Það er ekki bara andstaða við Evrópusambandið, evruna, eða sameiningarþróun innan ESB sem einkennir þessa flokka.
Þeir eru líka að ná til „verkalýðsins“, sem er nú varla réttnefni lengur yfir ófaglært fólk á hinum almenna vinnumarkaði.
Þess vegna hafa forystumenn Verkamannaflokksins í Bretlandi ekki minni áhyggjur af framgangi Ukip en forráðamenn Íhaldsflokksins.
En hvað sem skilgreiningum fræðimanna líður er ljóst að þegar hér er komið sögu verður að taka þessa flokka alvarlega.
Það er ekki hægt að útiloka fjórðung Dana frá áhrifum á landsmál svo dæmi sé tekið.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.