Oana Lungescu, upplýsingafulltrúi NATO, sagði miðvikudaginn 6. ágúst að aðgerðir Rússa við landamæri Úkraínu sköpuðu „hættusástand“ sem gæti „dregið úr líkum á að unnt yrði að finna pólitíska lausn á deilunni“. „Við ætlum ekki að geta okkur til um hvað vakir fyrir Rússum en við getum séð hvernig þeir haga framgöngu sinni og það veldur okkur miklum áhyggjum,“ er haft eftir Lungescu í tilkynningu frá höfuðstöðvum NATO í Brussel.
Af hálfu bandalagsins er talið að ráðamenn í Moskvu kunni að beita herafla í Úkraínu undir því yfirskini að þeir séu að létta almenningi lífið eða stilla til friðar.
Herforingi hjá NATO sem vill ekki láta nafns síns getið sagði við AFP-fréttastofuna miðvikudaginn 6. ágúst að rússneskum hermönnum við landamæri Úkraínu hefði fjölgað mikið. Þar væru nú um 20.000 hermenn með skriðdreka, fótgönguliða, stórskotalið og loftvarnakerfi auk aðstoðarsveita, sérsveita og margskonar flugvéla.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, tók í sama streng og þeir sem sögðu álit sitt í höfuðstöðvum NATO. Hann sagði:
„Við höfum ástæðu til að ætla að hættan á beinni íhlutun sé meiri núna en fyrir fáeinum dögum. Kæmi til þess að rússneskum herafla yrði beitt á beinan hátt í Úkraínu mundi staðan taka á sig allt aðra mynd en áður.“
Þessar lýsingar á vefsíðu þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle (DW) bera með sér vaxandi ótta við að til beinna átaka komi milli hers Úkraínustjórnar annars vegar og hers Rússa hins vegar í austurhluta Úkraínu. Fréttir herma að Úkraínuher sé að brjóta Rússavini og aðskilnaðarsinna á bak aftur í Donetsk-héraði.
Herfla undir merkjum NATO verður ekki beitt í þágu Úkraínu eins og um aðildarríki að bandalaginu sé að ræða enda er Úkraína það ekki. Ríkisstjórnir Vesturlanda munu standa frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum láti Vladimír Pútín Rússlandsforseti til skarar skríða í austurhluta Úkraínu eins og hann gerði þegar hann innlimaði Krímskaga í Rússland. Vestrænar ríkisstjórnir stóðu ráðþrota gagnvart þeirri aðgerð þótt þær gripu til refsiaðgerða sem síðan hafa verið hertar stig af stigi án þess að Pútín láti segjast.
Pólski forsætisráðherrann hefur ekki aðeins áhyggjur af þróun mála fyrir hönd Úkraínumanna. Hann er einnig áhyggjufullur vegna stöðu eigin þjóðar gagnvart Rússum. Sýni Rússar valdsmannssvip gagnvart Pólverjum eða þjóðum Eystrasaltsríkjanna þriggja reynir á þolrifin innan NATO. Ríkin eru aðildarríki NATO og árás á eitt þeirra er árás á öll NATO-ríkin. Hefur NATO burði til að bregðast á viðeigandi hátt við slíkri árás?
Nýlega kom út skýrsla á vegum varnarmálanefndar neðri deildar breska þingsins. Þar er dregin dökk mynd af stöðu NATO gagnvart Rússum sem hafi eflt herafla sinn á sama tíma og herafli NATO hafi minnkað í niðurstöðum skýrslunnar segir:
„NATO er um þessar mundir ekki vel búið undir að Rússar ógni NATO-ríki.“ Bent er á að nú ráði breski herinn alls yfir 156 stórum skriðdrekum sem dugi fyrir eina herdeild. Alþjóðahermálastofnunin í London (IISS) sagði árið 2013 að Rússar réðu alls yfir 2.800 stórum skriðdrekum. Þá hafa rússneskir ráðamenn kynnt metnaðarfull áform til að fjölga í rússneska hernum og endurnýja tækjakost hans. Markmiðið sé að auka hlutfall venjulegs vopnabúnaðar sem flokkaður er sem „nútímalegur“ í 70% árið 2020 úr 10% árið 2012.
Þingnefndin lýsir einnig kjarnorkuherafla Rússa: „Rússar líta á langdrægan kjarnorkuherafla sinn sem þungamiðju í fælingarmætti sínum gegn Vesturlöndum eða til að beita í síðbúnu svari við árás á Rússland. Rússar verja um þriðjungi af hernaðarútgjöldum sínum til þessa herafla.“ Fram kemur að síðan árið 2009 hafi Rússar að minnsta kosti tvisvar sinnum æft kjarnorkuárásir, þar á meðal á Varsjá. Ríkisstjórn Baracks Obama tilkynnti hins vegar snemma á þessu ári að Bandaríkjamenn mundu einhliða fækka í langdrægum kjarnorkuherafla sínum og fara hraðar en gert er ráð fyrir í START-afvopnunarsamningnum.
Helstu aðfinnslur nefndar bresku þingmannanna snúa að úreltum þáttum í varnarstefnu NATO sem kunni að gera bandalaginu ókleift að halda í við breytingar sem verða á margbrotinni stefnu Rússa í hermálum. Lykilþáttur í stefnu Rússa er það sem nefndin kallar á ensku ambiguous warfare - tvíræðan hernað. Rússneskur herfræðingur segir að í tvíræðum hernaði felist að beita óvenjulegum herafla, gera tölvuárásir og heyja áróðursstríð „til að yfirbuga andstæðinginn án þess að grípa til vopna (með óbeinum aðgerðum) með því að beita yfirburðum í upplýsingamiðlun“.
Stefna NATO er reist á að í krafti sameiginlegra varna geti her í nafni bandalagsins brugðist við „vopnaðri“ árás. Beiti Rússar annarri aðferð við árás sína eins og að hreiðra um sig í rússneskum minnihlutahópum í einstökum ríkjum er ekki unnt að bregðast við slíkum undirróðri með sameiginlegum herafla. Þá má grafa undan öryggi ríkja með tölvuárásum og með því að senda smáhópa sérsveitarmanna á vettvang til að valda uppnámi og hræða almenning í stórpólitískum tilgangi.
Fyrstu dagana í september koma leiðtogar NATO-ríkjanna saman til fundar í Wales. Upphaflega var talið að fundurinn mundi einkum snúast um uppgjör á stríðsrekstri undir merkjum bandalagsins í Afganistan sem lýkur nú um áramótin og mótun stefnu í ljósi þess. Nú eru brýnni mál komin til sögunnar sem standa nær hjarta NATO en Afgangistan.
Jens Stoltenberg, verðandi framkvæmdastjóra NATO, bíða knýjandi verkefni. Eigi bandalagið að svara kalli tímans í ljósi ögrana Rússa og breyttra aðstæðna í öryggismálum hlýtur það að endurskoða afstöðu sína til varna aðildarríkjanna á heimaslóðum en ekki verja kröftum sínum í fjarlægum heimshlutum eins og um smá-útgáfu á Sameinuðu þjóðunum sé að ræða.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.