Sunnudagurinn 22. apríl 2018

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar


Styrmir Gunnarsson
1. febrúar 2015 klukkan 10:44

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

Þýzka tímaritið Der Spiegel segir að þótt leiðtogar annarra ESB-ríkja komi ekki fram til stuðnings Grikkjum geri þeir sér vonir um að framganga nýrra valdhafa þar leiði til breytinga á valdajafnvægi á meginlandi Evrópu.

Enn einu sinni er það sterk staða Þýzkalands, sem veldur óróa í Evrópu, þótt með öðrum hætti sé en áður.

En jafnframt er athyglisvert að Spiegel telur evruna ekki sameiningarafl í Evrópu eins og henni var ætlað, heldur sé hún að sundra álfunni og stöðva sameiningarþróun Evrópuríkja.

Þetta er umhugsunarefni fyrir þann hóp Íslendinga, sem hefur viljað og vill enn sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu en drifkrafturinn í þeirri baráttu hefur frá upphafi verið evran, sem þessum hópum hefur þótt eftirsóknarverð.

Það er hins vegar ekki bara evran, sem er að sundra Evrópu. Það er sameiningarþróunin að gera líka.

Þegar svo er komið að flokkar yzt til hægri og vinstri eru að brjótast til valda um alla álfuna er ljóst að hófsamari stjórnmálamenn hafa misst jarðsamband. Þeir ná ekki lengur til fólksins í þessum löndum, sem bersýnilega hefur ekki trú á að evrópskt stórríki sé æskilegur kostur fyrir íbúa þessara landa.

Evran er í uppnámi og sameiningarþróunin er í uppnámi.

En til viðbótar kemur að enn einu sinni loga landamæri þeirra ríkja, sem eiga land að Rússlandi.

Vonir um eðlilegt samband annarra Evrópuríkja við Rússland eru að engu orðnar.

Sumir líta svo á að nýtt kalt stríð sé hafið.

En hvað sem menn vilja kalla það er auðvitað ljóst að samskipti sem snúast um það hversu langt eigi að ganga í refsiaðgerðum gagnvart Rússum eru ekki eðlileg.

Og nú er ekki lengur um það deilt hvort rússneskir hermenn eru í austurhluta Úkraínu heldur hvort þeir eru „sjálfboðaliðar“ eða hermenn sem þangað hafa verið sendir af rússneskum stjórnvöldum.

Það er tími til kominn að þeir hópar Íslendinga, sem enn vilja aðild að Evrópusambandinu átti sig á hvað er að gerast á meginlandinu.

Við erum vitni að upphafi umbrota innan Evrópusambandsins, sem enginn getur fullyrt um hvar muni enda en meiri líkur en minni á að þær leiði til mikilla breytinga á samskiptum þessara ríkja frá því sem verið hefur síðustu áratugi.

Það er ekki aðeins að það henti ekki íslenzkum hagsmunum að verða þátttakandi í þessari þróun.

Það getur beinlínis verið hættulegt,

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Það eru ekki hagsmunir Íslands að verða peð á taflborði evrópsks stórríkis og Evrasíu­sambandsins

Stofnun og starfræksla Evrasíu­sambandsins, sem sagt hefur verið frá í fréttum Evrópu­vaktarinnar vekur hóflega athygli og sumir, eins og einn dálkahöfundur euobserver, telja það andvana fætt vegna þess að Rússar hafi ekki efni á því. Því er ætlað að verða eins konar mótvægi við Evrópu­sambandið.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS