Augljóst er að reiði Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra yfir rannsóknarnefndinni sem vinstri-grænir vilja að alþingi setji honum til höfuðs vegna stuðnings Íslands við hernaðinn gegn Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbíu, ristir djúpt.
Össur hefur krafist þess af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að hún tæki afstöðu með sér í málinu. Jóhanna sem kýs að þegja þar til upp úr sýður hjá henni á ræðum í flokksstjórn Samfylkingarinnar svaraði spurningum fréttamanns RÚV um rannsóknarnefndina og Össur eftir ríkisstjórnarfund þriðjudaginn 30. ágúst og skóf ekki utan af skömmum í garð vinstri-grænna. Jóhanna sagði um flokksráðsfund vinstri-grænna og ályktun hans:
„Mér finnst það nú bara alveg óskiljanlegt vegna þess að utanríkisráðherra hefur í alla staði staðið vel að þessu máli og ég tek undir hans málflutning sem er kórréttur. Hann fór fullkomlega að ályktun Alþingis í þessu máli og þetta mál hefur verið í ríkisstjórn þannig að þessi ályktun VG er alveg óskiljanleg.“
Fréttamaðurinn spurði Jóhönnu að sjálfsögðu ekki að því um hvaða ályktun alþingis talaði í þessu svari sínu. Ályktaði alþingi um aðgerðir NATO í Líbíu? Ekki kom nein athugasemd við þessi orð Jóhönnu frá aðstoðarmanni hennar eins og þegar hún tók síðast til máls eftir ríkisstjórnarfund og sagði að ríkisstjórnin ætlaði að koma til móts við Kvikmyndaskóla Íslands en aðstoðarmaðurinn afturkallaði yfirlýsinguna áður en fréttatímanum lauk. Nú kom engin slík afturköllun. Fréttastofa RÚV ætti að lesa ályktun alþingis um Líbíumálið í fréttatíma sínum.
Í RÚV setti fréttamaðurinnn ályktun vinstri-grænna til höfuðs Össuri í samhengi við að Katrín Júlíusdóttir hefði skipað nýja stjórn Byggðastofnunar í vikunni sem leið. Vinstri-grænir ættu ekki lengur fulltrúa í stjórninni þar sem hún heyrði beint undir ráðherra - og hann skipaði stjórnina sjálfur. Mátti helst skilja frétt RÚV á þann veg að reiði vinstri-grænna í garð Össurar og NATO vegna Líbíu mætti rekja til þess hvernig staðið var að skipun stjórnar Byggðastofnunar. Þá segir í frétt um þetta á ruv.is:
„Forsætisráðherra er þó ekki endilega á því að aukinn titringur sé að myndast milli samstarfsflokkanna. “Nei, ég held að flokkarnir eigi nú að láta það vera að vera að skiptast á skoðunum í gegnum ályktanir. Fólk á bara að vera eins og manneskjur og ræða þetta við og ræða þetta saman ef einhver óánægja er á ferðinni.„
„Fólk á bara að vera eins og manneskjur“ segir Jóhanna 30. ágúst en hún hefur gjarnan líkt vinstri-grænum við ketti. Takið eftir orðalaginu að Jóhanna sé „ekki endilega á því að aukinn titringur sé að myndast milli stjórnarflokkanna“. Hvað felst í þessu orðalagi? Annars vegar að Jóhanna viðurkennir að sjálfsögðu ekki að stjórn sín sé að springa og hins vegar alltof mildilegt orðalag um stöðuna innan ríkisstjórnarinnar. Þar leikur allt á reiðiskjálfi og ráðherrar Samfylkingarinnar nota hvert tækifæri sem þeim gefst til að ráðast á samstarfsflokkinn.
Gömlum alþýðubandalagsmanni eins og Össuri er vel ljóst að það er kækur frá því á árum kommúnistanna að innan raða vinstri-grænna tapa menn heilbrigðri skynsemi þegar NATO á í hlut. Í stað þess að benda á þá staðreynd kýs hann að gera hina stórundarlegu ályktun flokksráðs vinstri-grænna að stórmáli í stjórnarsamstarfinu og Jóhanna ýtir undir ágreininginn með orðum sínum.
Vinstri-grænir verða vissulega æ vandræðalegri sem umræður um Líbíu-ályktun þeirra magnast. Leikaraskapurinn er mikill. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, sem leiddi umræður um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stuðninginn við NATO vegna Líbíu í gegnum utanríkismálanefnd, segist ekki hafa verið á flokksráðsfundi vinstri-grænna einmitt þegar ályktun um rannsókn á störf hans var til afgreiðslu, þar sat þó kippa af ráðherrum og enginn greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
Hitt er síðan annað mál að vinstri-grænir láta valta yfir sig möglunarlaust í ESB-málum og þola árásir á Jón Bjarnason án þess að snúast honum til varnar. Þeir mega hins vegar ekki reka upp gamla herópið: Ísland úr NATO! án þess að Össur fyllist bræði. Hve oft skyldi hann hafa öskrað það hér á árum áður?
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...
Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf
„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.
Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrirgreiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...