Þriðjudagurinn 19. janúar 2021

Össur veður elginn í öryggismálum - rangfærir orð Kanadamanna


5. desember 2011 klukkan 18:16

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var meðal hinna fyrstu innan Samfylkingarinnar sem lýsti fögnuði yfir því að Huang Nubo ætlaði að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Ragnar Baldursson, starfsmaður sendiráðs Íslands í Peking, var Huang innan handar við leit að íslensku landi til að kaupa. Kristín Árnadóttir, sendiherra Íslands í Peking, tók þátt í blaðamannafundi með Huang í Peking í byrjun september 2011 til að fagna áformum hans á Íslandi. Enginn þarf með öðrum orðum að fara í grafgötur um að íslenska utanríkisráðuneytið stendur heilshugar með Huang Nubo.

Kanadaher
Hervélar fjúga yfir þinghúsið í Ottawa.

Utanríkisráðherra blæs einnig á alla sem gagnrýna áform Huangs og gerir reyndar lítið úr erlendum aðilum sem skoða málið frá sínum sjónarhóli og leggja mat á það á grunni upplýsinga sem þeir hafa um áform kínverskra stjórnvalda á norðurslóðum.

Meðal þeirra sem búa yfir mikilli þekkingu á þessu sviði eru kanadísk stjórnvöld. Kanadíska blaðið Globe and Mail birti grein mánudaginn 5. desember þar sem frá því er skýrt að innan kanadíska hersins líti menn á fjárfestingaráform Huangs sem lið í heildarsókn Kínverja norður á bóginn. Vilji sérfræðingar hersins að litið sé til þessa við mat á því sem nauðsynlegt sé að gera vilji Kanadastjórn tryggja fullveldi lands síns á heimskautaslóðum.

Rob Huebert, stjórnmálafræðingur við háskólann í Calgary, sérhæfir sig í geopólitík [tengingu stjórnmála og landafræði] á norðurskautinu. Hann þykir í fremstu röð fræðimanna í Norður-Ameríku sem láta sig málefni norðurslóða varða. Huebert er sammála mati sérfræðinga hersins um að Kanadamenn megi ekki láta deigan síga í varðstöðu sinni á norðurslóðum.

Össur Skarphéðinsson uppskar hlátur á blaðamannafundi í Brussel sumarið 2010 þegar hann lýsti oftrú sinni á evrunni og nauðsyn þess fyrir Íslendinga að komast inn á evru-svæðið. Þótti fjölmiðlamönnum hlægilegt að nokkrum manni dytti í hug að tala á þennan hátt miðað við þróun mála á evru-svæðinu.

Hér skal fullyrt að sæti Össur Skarphéðinsson meðal sérfróðra manna um málefni norðurslóða og segði hið sama við þá og hann gerði í hádegisfréttum RÚV mánudaginn 5. desember að það væri „fráleitt“ að áform Huangs tengdust áhuga kínverskra stjórnvalda á norðurslóðum yrði einnig hlegið að honum. Af frétt RÚV mátti raunar ráða að Össur teldi kanadíska herinn tala um að Kínverjar ætluðu að „ná yfirráðum yfir Íslandi“. Það kemur hvergi fram í greininni í Globe and Mail.

Össur Skarphéðinsson sagði í fréttum RÚV samkvæmt því sem stendur á ruv.is:

„Mér finnst það nú svolítið skondið að kanadíski herinn hafi áhyggjur af því að Kínverji vilji byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi og set það beinlínis í samhengi við það sem kemur fram í upphafi þessarar fregnar - að þessir kanadísku sérfræðingar hersins nota þetta beinlínis sem rök til að fá meira fjármagn frá ríkisstjórninni til að byggja upp mótvægi við Kínverja. Sjálfur tel eg að það sé nokkuð fráleitt að ætla það, að áhugi Nubos á því að kaupa land og fjárfesta í ferðaþjónustu tengist hugsanlegum áformum Kínverja um að ná yfirtökum á Íslandi. En það er það sem liggur að baki röksemdunum hjá þessum ágætu sérfræðingum kanadíska hersins, að minnsta kosti eins og þau birtast í þessari grein.“

Að utanríkisráðherra Íslands skuli túlka greinina í Globe and Mail á þann veg að kanadíski herinn telji að Kínverjar hafi áform „um að ná yfirtökum á Íslandi“ ætti að leiða til þess að kanadísk stjórnvöld mótmæltu við sendiherra Íslands í Ottawa. Ólíklegt er þó að fréttir berist af því slíkum mótmælum en það er aðeins til marks um að menn hlægja frekar að yfirlýsingum Össurar en að taka þær alvarlega.

Hvað halda menn að kínversk stjórnvöld segðu ef Kanadaher gæfi út álit þess efnis að Kínverjar ætluðu að leggja undir sig Ísland með Huang Nubo að vopni? Að Össuri Skarphéðinssyni detti í hug að álykta á þann veg en láti samt eins og sjálfsagt sé að utanríkisráðuneyti sitt aðstoði Huang sannar mönnum í Peking aðeins að þeir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af íslenska utanríkisráðuneytinu í þessu samhengi þótt það eigi að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við.

Um miðjan október 2011 gáfu sænskir sérfræðingar í þróun öryggismála á norðurslóðum út skýrslu um öryggismál Íslands. Þar benda þeir meðal annars á að á síðustu árum hafi hernaðarleg umsvif aukist umhverfis Ísland og breytt því ástandi sem talið er eðlilegt í öryggismálum. Þetta eigi einkum við ferðir rússneskra herflugvéla og herskipa sem fari nú reglulega um íslensk hafsvæði. Þessi umsvif Rússa skapi óvissu um fyrirætlanir þeirra.

Þessi viðvörunarorð féllu hvorki í kramið hjá Steingrími J. Sigfússyni né Össuri Skarphéðinssyni sem lét sér sæma að segja: „Mér þykir þessi skýrsla nú ótrúlega þunnur þrettándi þegar kemur að varnar- og öryggismálum.“

Þess varð hvergi vart opinberlega að neinn kippti sér upp við þessi orð Össurar. Einhverjir hafa þó vafalaust hlegið.

Augljóst er af viðbrögðum Össurar Skarphéðinssonar að hann telur sig hafa þekkingu og stöðu til að blása á viðhorf allra sem lýsa skoðunum sem eru ekki pólitískt réttar að hans mati. Það á við þegar rætt er um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins, þróun evrunnar og breytingar í öryggismálum í næsta umhverfi Íslands. Nú hefur Össur snúið sér að því að selja mjólkurvörur í Rússlandi.

Hið alvarlega í þessu máli er þó ekki viðhorf Össurar heldur sú staðreynd að hér er ekki starfandi nein sjálfstæð stofnun sem hefur burði til þess að leggja mat á þróun öryggismála á hernaðarlegu sviði og kynna niðurstöður sínar fyrir íslenskum stjórnvöldum eða eiga orðastað við sambærilegar stofnanir erlendis.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS