Þriðjudagurinn 5. júlí 2022

Jóhanna ræður sér málsvara - hefur reynslu af laumustörfum fyrir Baugsmenn - valdabaráttan magnast


27. janúar 2012 klukkan 12:06

Hinn 26. janúar 2012 birtist tilkynning á vefsíðu forsætisráðuneytisins um að Jóhann Hauksson blaðamaður, hefði verið ráðinn til forsætisráðuneytisins sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Jóhann væri ráðinn samkvæmt lagaheimild með sama hætti og aðstoðarmenn ráðherra skv. 22. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og hafi þegar tekið til starfa.

Jóhann Hauksson

Í Morgunblaðinu er 27. janúar minnt á að í byrjun árs 2010 hafi verið auglýst eftir upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins og komið hefði fram í fréttum RÚV að 37 manns sóttu um starfið. Að minnsta kosti sumir umsækjendur hafi verið boðaðir í viðtöl og nöfn þeirra birt opinberlega. Í júlí hafi á hinn bóginn verið greint frá því að hætt hefði verið við að ráða í starfið. Ástæðan var m.a. sögð viðleitni ráðuneytisins við að ná aðhaldsmarkmiðum í rekstri á árinu. Þá væru starfsmannamál stjórnarráðsins í skoðun, m.a. í tengslum við breytingar sem miðuðu að því að auka aðhald og sveigjanleika í starfsmannahaldi.

Jóhanna Sigurðardóttir á undir högg að sækja innan Samfylkingarinnar. Fyrir áramót sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að tímabært væri fyrir Samfylkinguna að skipta um formann og losna við Jóhönnu. Hún brást hin versta við þessum ummælum á þingi hinn 26. janúar og sagðist hafa „fullt umboð og fullan stuðning frá landsfundi flokksins sem haldinn var fyrir tveimur, þremur mánuðum“. Þar hefði hún kynnt verkefnalista sem hún fylgdi og ætlaði sér að gera til enda þessa kjörtímabils þannig að það yrði enginn bilbugur á henni og síðan orðrétt:

„Ég veit ekki til annars en að ég hafi fullan stuðning míns flokks til að klára þau mál og þó að einhverjar vangaveltur séu hjá Össuri Skarphéðinssyni um einhverja framtíðarleiðtoga flokksins geri ég ekki mikið með það. Hann getur verið með sínar vangaveltur út og suður alveg eins og honum sýnist.“

Þessi hryssingslegu ummæli í garð Össurar eru í sama dúr og höggin sem Jóhanna hefur látið dynja á Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, undanfarið vegna afstöðu hennar í landsdómsmálinu svonefnda sem nú liggur fyrir þingi.

Til þessa hefur reiði Jóhönnu í garð samstarfsmanna sinna einkum beinst að vinstri-grænum. Nú er engu líkara en hún hafi fengið þau ráð að bíta frá sér innan Samfylkingarinnar og sýna hver valdið hafi á þeim bæ. Hér er sagt að hún hafi fengið ráð af því að augljóst er að Jóhanna er ekki alltaf sjálfráð gerða sinna heldur er henni stjórnað af nefnd sem hún hefur myndað í kringum sig innan flokks og í forsætisráðuneytinu. Þegar hún varð forsætisráðherra flutti hún með sér embættismenn úr félagsmálaráðuneytið og hrakti þá sem fyrir voru í forsætisráðuneytinu á brott. Nú hefur Jóhann Hauksson sest í nefndina sem stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Jóhann Hauksson er dæmigerður fulltrúi þeirra fjölmiðlamanna sem gengu erinda Baugs og Samfylkingarinnar fyrir hrun og láta eftir hrun eins og þeir séu best til þess fallnir að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn. Jóhann segist hafa hannað kenningu sem hann orðaði á þennan veg á rás 2 fimmtudaginn 26. janúar: „Saga sundurlyndis jafnaðar- og vinstrimanna er saga valdstjórnar Sjálfstæðisflokksins.“

Fyrir áramót taldi Jóhanna óhjákvæmilegt að losna við Jón Bjarnason og Árna Pál Árnason úr ríkisstjórn sinni til að draga úr sundurlyndi þar. Eftir áramót gerir Jóhanna hríð að þeim frammámönnum innan Samfylkingarinnar sem hún telur að sýni sér ekki næga hollustu. Jóhann Hauksson hefur það hlutverk að búa þetta ofríki í þann búning að unnið sé að því að mynda samhentara stjórnvald og styrkja þar með framkvæmdarvaldið í landinu.

Jóhann sagði í lok viðtals í síðdegisþætti rásar 2 á RÚV fimmtudaginn 26. janúar að titill sinn, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, gæfi til kynna að hann ætti að framfylgja stefnumiði stjórnarflokkanna um að framkvæmdavaldið, stjórnarráðið, kæmi fram sem ein heild. Hann sagðist hafa skilning á því að Jóhanna Sigurðardóttir kysi að gera fjölmiðlamönnum erfitt um vik að ná í sig, hver maður hefði sinni persónuleika, þannig félli það greinilega Steingrími J. Sigfússyni vel að vera í sviðsljósi fjölmiðlanna. Sitt hlutverk sagði Jóhann væri hins vegar að starfa fyrir ríkisstjórnina og sjá til þess að markmiðið um „samhentara stjórnvald“ næðist.

Umsjónarmenn þáttarins kynntu Jóhann Hauksson til sögunnar sem rannsóknarblaðamann og „þungavigtarmann í íslenskri blaðamennsku“ og veltu fyrir sér hvernig slíkur þjóðfélagsrýnir gæti tekið að sér að verða talsmaður ríkisvaldsins. Af orðum Jóhanns mátti draga þá ályktun að fyrir hann hefði ekki verið auðvelt að skipta um hlutverk, hann hefði þó gert þetta upp við sig og því tekið að sér þetta starf. Hann hefði ást á sannleikanum og liti á hlutverk sitt sem þjónustu við hann og almenning með gagnsæi í opinberri starfsemi að leiðarljósi. Áhugi sinn á að segja satt hefði „ekki dalað“ vegna hins nýja starfs enda væri hann „prinsippmaður“.

Eitt af því sem Jóhann sagðist ekki fara leynt með væri andúð sín á frjálshyggjunni og því eftirlitsleysi sem hefði ráðið hér í þjóðfélaginu fyrir hrun. Síðustu árin fyrir hrun starfaði Jóhann á vegum Baugsmanna við Fréttablaðið og DV auk þess sem þeir kostuðu þátt sem hann hélt úti á Útvarpi Sögu en á þeim árum var því neitað að hann starfaði á stöðinni sem sérstakur málaliði Baugsmanna.

Í síðdegisþættinum sagðist Jóhann hafa fjallað um spillinguna í þjóðfélaginu og gefið út bók um efnið. Hún heitir Þræðir valdsins og í umsögn um hana í tímaritinu Þjóðmálum sagði ég meðal annars:

„Jóhann Hauksson blaðamaður var virkur þátttakandi í aðdraganda hrunsins sem starfsmaður á Baugsmiðlum. Hann tók til dæmis viðtal við Jóhannes Jónsson í Bónus sem birt var í Fréttablaðinu í ágúst 2005 til að bæta hlut Jóhannesar gagnvart ákæru í Baugsmálinu. Birting viðtalsins dróst af því að Baugsmenn vildu ekki að “kálfurinn„ sem þeir settu inn í Fréttblaðið til að bæta málstað sinn vegna ákærunnar birtist fyrr en sagt hefði verið frá efni hennar í breska blaðinu The Guardian. […]

Árið 2008, skömmu áður en hæstiréttur kvað upp lokadóm sinn í Baugsmálinu, öðrum en skattaþætti þess sem enn er ólokið, birti Jóhann Hauksson „fréttaskýringu“ í DV þar sem hann fullyrti að í framhaldi af húsleit hjá Baugi 28. ágúst 2002 hefði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri lagt drög að því að Jón Ásgeir Jóhannesson yrði handtekinn við komu í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli 29. ágúst við komu til landsins frá London. Þá gat Jóhann þess að fréttamenn frá ríkisútvarpinu hafi verið „albúnir að mynda atburðarásina væntanlegu“. Taldi Jóhann að tilgangur Haralds hefði verið að sýna Jón Ásgeir í handjárnum í kvöldfréttum sjónvarpsins. Ríkislögreglustjóri og fréttastjóri sjónvarps sögðu þessa frásögn Jóhanns ósanna. Ritstjórar DV svöruðu út í hött þegar þess var óskað að rangfærslur Jóhanns yrðu leiðréttar. […]

Jóhann fjallar meðal annars um skattmál Baugsmanna sem enn er fyrir dómi. Telur hann að þar hafi menn ekki setið við sama borð við smíði ákæru. Það endurpsegli „hlutdrægni, mismunun, frumstæða stjórnsýslu og misbeitingu valds“. Í þessu skattamáli hafi verið kölluð fram „verstu einkenni íslenska klíku- og kunningjasamfélagsins“. Segir Jóhann að embættisfærsla valdhafa og æðstráðenda innan skattkerfisins í þessu máli hafi ekki „enn verið rannsökuð sérstaklega og líklegt að hún hverfi í ómælisdjúp gleymskunnar án þess að lítilli þjóð takist að læra nokkuð af glöpunum“.“

Bók Jóhanns og ummæli hans um menn og málefna gefa til kynna að hann fari hiklaust í manngreinarálit og dragi menn í dilka eftir því hvaða skoðanir hann hefur á þeim. Í tilefni stórra orða hans um hvernig staðið hafi verið að skattamáli Baugsmanna vakna spurningar um hvort hann muni í hinu nýja starfi sínu veita almenningi sýn inn í þá stjórnsýslu á sviði skattamála sem hann lýsir á ofangreindan hátt í bók sinni.

Ef tekið er mið af heiftinni í málflutningi Jóhanns Haukssonar í þágu Baugsmanna fyrir hrun er ekki að efa að hann mun ekki liggja á liði sínu í þágu Jóhönnu Sigurðardóttur þá mánuði sem þau eiga eftir að starfa saman í forsætisráðuneytinu. Jóhann mun ekki hika við að beita hverju ráði sem hann kann í viðleitni sinni til að gera hlut Jóhönnu sem mestan og bestan, á kostnað samstarfsfólks innan Samfylkingarinnar ef svo ber undir.

Það er líklega ekki tilviljun að daginn eftir að tilkynnt er um ráðningu Jóhanns til Jóhönnu birtir Hallgrímur Helgason rithöfundur grein í DV í anda þeirrar greinar sem hann skrifaði í Morgunblaðið í september 2002 um bláu höndina til varnar Baugi með hvatningu um að stjórnmálamenn gengju í lið með Baugsmönnum til að berja á sjálfstæðismönnum og sérstaklega Davíð Oddssyni. Nú tekur Hallgrímur ekki upp hanskann fyrir auðmennina heldur ræðst að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, vegna máls sem er í opinberri rannsókn. Illugi Jökulsson fagnar grein Hallgríms á vefsíðu sinni og hvetur fólk til að lesa hana.

Nefndin sem stjórnar Jóhönnu er tekin til við að skipa mönnum í sóknarstöðu vegna komandi kosninga. Nefndarmenn vita að þær kunna að vera nær en látið er í veðri vaka. Vandinn er hvernig eigi að taka á málefnum Jóhönnu sjálfrar en hagsmunir hennar og nefndarinnar falla saman. Árásirnar á Ástu Ragnheiði og Össur ber að skoða í þessu ljósi auk brottrekstrar Árna Páls úr ríkisstjórninni. Með því að skapa andrúmsloft ótta vonar nefndin að sér takist að finna eftirmann Jóhönnu sem verði nefndarmönnum leiðitamur og þeir geti leitt til forystu í flokknum. Reynsla Jóhanns Haukssonar af laumustörfum fyrir Baugsmenn mun koma sér vel á næstu vikum og mánuðum í átökum innan stjórnarráðsins og Samfylkingarinnar.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS