Föstudagurinn 6. desember 2019

Hvernig þjónar það hagsmunum Bandaríkjanna að útiloka Ísland frá fundum um mikilvægustu hagsmunamál okkar?


9. maí 2013 klukkan 08:57

Utanríkisráðuneytið fékk einfalda spurningu senda í tölvupósti frá Evrópuvaktinni hinn 19. apríl. sl. Átján dögum síðar eða hinn 7. maí barst svarið. Spurningin var efnislega sú, hvers vegna Ísland ætti ekki fulltrúa á fundi fimm ríkja í Washington sem haldinn var hinn 29. apríl. um fiskveiðar á Norðurslóðum.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram, að fundurnn hafi verið haldinn að frumkvæði Bandaríkjastjórnar. Hún hafi tekið ákvörðun um að bjóða Íslandi ekki til fundarins með þeim rökum, að fundurinn hafi átt að snúast um þann hluta Norður-Íshafsins, sem lægi næst strönd Alaska og yrði fyrst íslaus en að auki ætti Ísland ekki efnahagslögsögu að Norður-Íshafinu.

Aðild að fundinum áttu auk Bandaríkjanna, Noregur, Kanada, Danmörk (vegna Grænlands) og Rússland.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram, að það hafi talið að Ísland ætti ótvírætt erindi á þennan fund í „ljósi mikilla fiskveiða Íslands á norðurslóðum, í krafti virkrar þátttöku Íslands í störfum alþjóðlegra fiskveiðistjórnunarstofnana og vegna óvissu um hugsanlega gengd fiskistofna lengra til norðurs en nú er.“

Jafnframt kemur fram, að athugasemdir hafi verið gerðar við bandarísk stjórnvöld vegna þessa og „formleg samskipti hafi verið við stjórnvöld hinna ríkjanna fjögurra um málið.“

Þetta mál sýnir í hnotskurn hve viðkvæm staða okkar er gagnvart því sem framundan er á Norðurslóðum.

Það er rétt hjá ráðuneytinu, að fiskistofnar eru að færa sig norður á bóginn. Sjómenn og útgerðarmenn hafa orðið varir við það nú þegar. Það eru dæmi um það að útgerðir á Snæfellsnesi hafi sett upp tímbundna starfsstöð í Bolungarvík af þeim sökum.

En í röksemdum Bandaríkjamanna er að finna þann veruleika að við erum í jaðri þess svæðis sem í daglegu tali kallast Norðurslóðir og þurfum þess vegna að halda vel á okkar málum til þess að verða ekki ýtt til hliðar.

Röksemdir af því tagi, sem Bandaríkjamenn notuðu til þess að útiloka okkar frá fundinum í Washington (skilja okkur eftir útundan eins og krakkarnir mundu segja)eru hinsvegar röksemdir, sem þröngsýnir skriffinnar búa til. Þetta eru ekki rök, sem pólitíkusar mundu nota.

Ástæða er einföld. Þrátt fyrir þá staðreynd, að við erum í jaðri þessa svæðis erum við af augljósum ástæðum ein þeirra þjóða, sem fulltrúa eiga í Norðurskautsráðinu. Þar vegur atkvæði okkar jafn þungt og Bandaríkjanna. Þetta er það ráð, sem stærstu og öflugustu ríki og ríkjabandalög heims, svo sem Evrópusambandið, Kína, Japan o.fl. sækjast nú eftir að fá fasta áheyrnarfulltrúa að. Við getum greitt atkvæði með óskum þessara þjóða. Við getum líka beitt neitunarvaldi gegn slíkri aðild þeirra.

Nú eru um sjötíu ár liðin frá því að Bandaríkin ruddu brautina fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi með því að viðurkenna sjálfstæði Íslands. Á þeim sjötíu árum hafa þessar tvær þjóðir átt náið samstarf sín í milli, fyrst vegna komu bandarísks herliðs hingað á stríðstímum, síðar vegna samstarfsins innan Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningsins við Bandaríkin, en bandarískt varnarlið var hér í meira en hálfa öld. Það þurfti mikil pólitísk átök hér á Íslandi til þess að tryggja veru þess hér.

Þessa sögu þekkja skrifstofumennirnir, sem tóku ákvörðun um að útiloka okkur frá fundinum í Washington hinn 29. apríl sl. ekki. Og það sem verra er: Nú er enginn „Iceland desk“ í Washington, sem gætir hagsmuna okkar þar.

Á sama tíma og nýjar kynslóðir í Washington hirða ekkert um það sem liðið er voma Kínverjar yfir Íslandi með nánast ótrúlegum hætti. Er það vilji Bandaríkjastjórnar að reka okkur í fang Kínverja og leita þar stuðnings við hagsmunagæzlu okkar á Norðurslóðum? Er það Bandaríkjunum í hag?

Það er augljóslega að verða eitt helzta verkefni okkar í utanríkismálum að verjast ágengni Kínverja um leið og við viljum að sjálfsögðu eiga við þá eðlileg samskipti. En hvað gerir lítil og fámenn þjóð, sem hefur upplifað það á undanförnum árum að á Norðurlöndum er talað niður til hennar, í Evrópu sitja gömul nýlenduveldi við þá gömlu iðju að reyna að kúga smáþjóðir og vinir hennar vestan hafs hafa gleymt henni?

Það er kominn tími til að bandaríska sendiráðið við Laufásveg taki við sér og átti sig á því, sem hér er að gerast. Og raunar ástæða til að ætla að þar geri menn sér skýra grein fyrir þessari stöðu en spurning hversu vel þeim tekst að koma henni til skila í Washington.

Útilokun okkar frá fundi í Washington sem fjallar um málefni, sem snertir lífshagsmuni okkar er viðvörun um það, að gera þarf stórátak í að byggja upp á ný raunveruleg pólitísk tengsl við Washington. Það þarf að verða eitt af meginverkefnum nýrrar ríkisstjórnar og nýs utanríkisráðherra. Sennilega hefur fráfarandi ríkisstjórn, sem að mestu er skipuð gömlum herstöðvarandstæðingum ekki haft nokkurn áhuga á því.

Og það er ekki nóg að forseti Íslands hafi aðgang að nokkrum öldungadeildarþingmönnum í Bandaríkjunum, þótt ekki skuli gert lítið úr þvi.

SG

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS