Laugardagurinn 16. janúar 2021

Tímamótafrétt um P-3C Orion vélar á Keflavíkurflugvelli á bls. 64 - koma að nýju eftir 10 ára fjarvist


11. desember 2014 klukkan 13:15
Úr Orion-vélunum er varpað hlustundarduflum sem nema hljóð frá kafbátum og senda til hlustenda um borð í vélunum.

Tímamótafréttir láta ekki alltaf mikið yfir sér. Á bls. 64 í Morgunblaðinu fimmtudaginn 11. desember 2014 er kynnt ný bók eftir Baldur Sveinsson ljósmyndara, Flugvélar 2014. Þar segir frá því að hann hafi meðal annars tekið myndir af sex kafbátaleitarflugvélum af gerðinni P-3C Orion úr flota Bandaríkjahers sem hafi verið um skeið á Íslandi í sumar. „Var ferðum þeirra þannig háttað að alltaf var ein á lofti í einu. Heimahöfn vélanna er á Hawaii í Kyrrahafi, en hingað komu þær frá útileguvakt frá Signoella-flotastöðinni á Sikiley í Miðjarðarhafi. Vélarnar komu hingað 15. júní og voru hér nokkuð fram í júlí, en á þeim tíma voru viðsjár í Úkraínu og vestræn ríki í viðbragðsstöðu vegna íhlutunar Rússa þar,“ segir í fréttinni sem Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður skrifar.

Í bókinni segir Baldur: „Reikna má má með að þær hafi verið að kanna hugsanlegar ferðir kafbáta í námunda við Íslands og hugsanlega var þetta tengt Úkraínudeilunni.“

Sigurður Bogi leitaði upplýsinga um málið hjá íslenskum yfirvöldum en Landhelgisgæsla Íslands annast daglega umsýslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem vélarnar og áhafnir þeirra höfðu aðsetur. Jón Guðnason hjá gæslunni vildi ekki staðfesta að vélarnar hefðu verið við kafbátaleit við Ísland þótt þær séu ætlaðar til þess hlutverks. Vitnað er í vefsíðu landhelgisgæslunnar þar sem segir á flugsveitin hafi verið hér vegna æfinga og eftirlitsverkefna í framhaldi af reglubundinni loftrýmisgæsluvakt. Sigurður Bogi sneri sér til utanríkisráðuneytisins sem sagði að áhafnir vélanna hefðu verið hér „að kynna sér staðhætti á norðurhluta hafsvæðis sjötta flota bandaríska sjóhersins“.

Fréttir af auknum hernaðarumsvifum Rússa í lofti og á sjó á Eystrasalti og í norðurhöfum hafa sett mikinn svip á fréttir um öryggismál undanfarna mánuði. Skemmst er að minnast leitar Svía að kafbáti í skerjagarðinum utan við Stokkhólm í október. Þá hafa rússneskar vélar sýnt tilburði sem benda til þess að þær æfi árásir á staði við Eystrasalt auk þess sem þær fljúga í sumum tilvikum hættulega glannalega í nálægð farþegaflugvéla. Rússnesk flotadeild var fyrir skömmu við æfingar á Ermarsundi og leitaði skjóls í óveðri í mynni Signu við strönd Frakklands.

Er eðlilegt að setja komu bandarísku P-3C Orion kafbátaleitarflugvélanna í þetta samhengi. Í febrúar á þessu ári voru rétt 10 ár liðin frá því að þessi tegund flugvéla yfirgaf endanlega varnarliðið á Keflavíkurflugvelli en frá árinu 1995 voru hér að jafnaði fjórar slíkar vélar með bækistöð og viðhaldssveitir sér til aðstoðar. Þær voru hins vegar fluttar til Sikileyjar í ársbyrjun 2004. Á áttunda og níunda áratugnum héldu mun fleiri P-3C Orion flugvélar úr flota Bandaríkjanna og frá Hollandi uppi víðtæku eftirliti héðan með ferðum sovéskra kafbáta. Eftir að Bandaríkjamenn fluttu vélar síðan héðan til Sikileyjar var meðal annars rætt um að Norðmenn fengju fasta aðstöðu fyrir kafbátaleitarvélar sínar hér á landi.

Í þessu samhengi má rifja upp að 17. febrúar 2004 svaraði Halldórs Ásgrímsson, þáv. utanríkisráðherra, fyrirspurn á alþingi frá Rannveigu Guðmundsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um veru P-3C véla Bandaríkjamanna hér á landi. Lýsti Rannveig áhyggjum ef vélarnar færu héðan og taldi brottför þeirra veikja stöðu íslenskra stjórnvalda í viðræðum við Bandaríkjamenn um dvöl varnarliðsins hér á landi.

Rannveig hélt því fram að samningsstaða Íslendinga um framtíð varnarliðsins hér á landi myndi veikjast ef niðurstaðan yrði sú að P-3C-vélarnar færu af landinu. „Hver er samningsstaða okkar ef það er verið að fara með þessar eftirlitsvélar?“ spurði hún. Ráðherra sagði þetta ekki spurningu um samningsstöðu. Hann sagði:

„Þetta er spurning um að virða þær varnarskuldbindingar sem gilda samkvæmt varnarsamningnum. Það liggur ljóst fyrir af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að við teljum að loftvarnir fyrir Ísland séu eitt aðalatriðið í því sambandi. Um það er verið að tala.Við erum að sjálfsögðu alveg tilbúin til að ræða eftirlit með kafbátum. Það hafa engar viðræður farið fram milli Íslands og Bandaríkjanna um það mál. En ég veit að háttvirtur þingmaður getur verið mér sammála um að það er ekki sama-ástæða til eftirlits með kafbátum nú og var fyrir 20 til 30 árum.“

Rannveig Guðmundsdóttir svaraði Halldóri Ásgrímssyni og sagði:

„Það er greinilegt að pólitískur stuðningur Íslands hefur ekki dugað til að halda óbreyttri stöðu stöðu gagnvart Bandaríkjunum. Ég bendi á það. Maður verður að vita hver staðan er til að geta horft fram á veginn. Ísland hefur greinilega mjög litla þýðingu fyrir varnarstefnu Bandaríkjanna.“

Þróunin í öryggismálum í Evrópu og á norðurslóðum hefur verið á þann veg á þessu ári að viðbúnaður og viðhorf fyrri ára eiga brýnt erindi við samtímann.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS