Samkomulag hefur tekist með svonefndum já-flokkum, það er ESB-flokkum, í Danmörku um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum þingkosningum í landinu. Í atkvæðagreiðslunni taki Danir afstöðu til þess hvort falla beri frá fyrirvörum á sviði réttarfarsmála gagnvart ESB sem hafa verið í gildi síðan 1992.
Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 en hann er grundvöllur evru-samstarfstarfsins og víðtækra breytinga á innviðum ESB á þeim tíma. Eftir að sáttmálinn hafði verið felldur af Dönum hófust viðræður innan ESB um þá skilmála sem tryggðu að Danir héldu áfram aðild að ESB. Var samið um fyrirvara á fjórum sviðum það er varðandi ESB-ríkisborgararétt, aðild að evru-samstarfinu, töku ákvarðana og aðgerðir í varnarmálum og yfirþjóðlegt vald að því er varðar réttarfarsmál, þ.e. dóms- og innanríkismál.
Helle-Thorning Schmidt forsætisráðherra kynnti að morgni þriðjudags 17. mars að flokkarnir sem eru hlynntir aðild Dana að ESB, það er stjórnarflokkarnir tveir Jafnaðarmannaflokkurinn og Radikale venstre auk SF (Sósíalíska þjóðarflokksins), Venstre og Íhaldsflokksins, hefðu náð samkomulagi sem tryggi að Danir haldi áfram þátttöku í evrópska lögreglusamstarfinu innan Europol og verði virkir þátttakendur í öðru samstarfi á þessu sviði, segir þei já í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Íslendingar eiga aðild að þessu samstarfi vegna aðildar Íslands að Schengen-samstarfinu.
Við kynningu á samkomulaginu sagði danski forsætisráðherrann:
„Meginmarkmið okkar er að sagt verði já um þau réttarfarsmálefni sem valda öllum sem stunda afbrot í Evrópu erfiðleikum en einnig þeim réttarfarsmálefnum sem auka öryggi Dana. Enginn neyðir okkur til neins í þessu efni. Við ákveðum þetta sjálf í Danmörku.“
Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, tók undir orð forsætisráðherrans og sagði einnig:
„Útlendinga- og flóttamannamál verða áfram í okkar höndum. Þetta er gott samkomulag. Við getum tekist á við gengi fíkniefnasala, þjófa og barnaníðinga.“
Hann áréttaði að Danir héldu sérstöðu sinni í útlendingamálum og við henni yrði ekki hróflað með þessu enda hefði hver flokkur neitunarvald í því efni á grundvelli samkomulagsins.
Flokkarnir sem almennt hafa efasemdir um aðild Dana að ESB standa ekki að samkomulaginu. Þetta eru: Enhedslisten, Liberal Alliance og Dansk Folkeparti (DF). Kristian Thulesen-Dahl, formaður DF, Danska þjóðarflokksins, er ekki ánægður og segir á Facebook:
„Enn fer ESB-lestin af stað. Nú er ætlunin að skera enn eina sneiðina af fullveldi Danmerkur. Segið mér. Hafa þeir ekkert lært?
Réttarfarsfyrirvarinn var trygging Dana gegn ESB-áköfum stjórnmálamönnum og nú vilja menn afnema hann einmitt til þess að stjórnmálamenn geti farið sínu fram án samráðs við fólkið.
Við getum tekið þátt í Europol með sérstökum samningi. Það kann að skapa stjórnmálamönnunum einhver vandræði en hvað með það?
Það tryggir jafnframt danskan sjálfsákvörðunarrétt um hælisleitendur og landamæravörslu. Málefni sem ekki má afhenda kommisörum ESB.“
Rina Ronja Kari, ESB-þingmaður og félagi í Folkebevægelsen mod EU, Þjóðarhreyfingunni gegn ESB, er ekki ánægð með samkomulag ESB-flokkanna og segir í fréttatilkynningu:
„Með því að afmá hinn skýra réttarfarsfyrirvara og setja í stað hans mildari fyrirvara eins og ESB-flokkarnir vilja fær meiriluti þingmanna í Christiansborg [danska þinghúsinu] til framtíðar frjálsar hendur til að framselja meira vald til ESB án þess spyrja Dani.“
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki síðar en fyrri hluta árs 2016. Samþykki Danir að falla frá fyrirvaranum gerist danska ríkið aðili að 22 af 50 lagareglum sem það á ekki aðild að vegna núverandi fyrirvara.
Heimild: Berlingske Tidende
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...
Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf
„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.
Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrirgreiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...