Föstudagurinn 19. ágúst 2022

Öfga­flokkar ESB-landa stofna til samstarfs við rússneska Ættjarðar­flokkinn - hafa Vladimír Pútín í hávegum


23. mars 2015 klukkan 12:20

Að mati Kremlverja eru til vondir nazistar og góðir nazistar. Hinir vondu eru í Úkraínu þar sem þeir veitast að málsvörum Rússa en hinir góðu eru í ESB-löndum þar sem þeir berjast gegn úrkynjun. Sunnudaginn 22. mars sátu fulltrúar hinna góðu ráðstefnu í St. Pétursborg.

Fulltrúar öfgaflokka á ráðstefnunni í St. Pétursborg

Markmið samstarfs Rússa og þeirra sem starfa í hinum öfgafullu flokkum innan ESB er að vinna að breytingu á stefnu ESB á þann veg að tekið verði meira mið af hagsmunum Rússa og grafið undan afstöðu ESB í deilunni um völd í Úkraínu segir í frétt The Moscow Times um fundinn. Á honum var samþykkt að koma á fót fastanefnd í því skyni að samræma stefnu Rodina, Ættjarðarflokksins í Rússlandi og bræðraflokkanna annars staðar í Evrópu.

Á ráðstefnunni voru fulltrúar frá sjö ESB-löndum, þ. á m. Grikklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Bretlandi. Í ræðum sínum skelltu fundarmenn skuldinni vegna Úkraínudeilunnar á Bandaríkjamenn, þeir hörmuðu vaxandi úrkynjun á Vesturlöndum og báru lof á friðarvilja og hæfni Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Udo Voigt, ESB-þingmaður og fyrrverandi leiðtogi Þjóðernislega lýðræðisflokksins (NDP) í Þýskalandi, sagði: „Amerískur lífstíll er ekki kjarni stefnu okkar, ekki heldur hommar og lesbíur. Við beinum athyglinni að fjölskyldum okkar og börnum okkar.“

Ráðstefnan varð næsta endaslepp eftir að hótun barst um að fundarstaðurinn, Holiday Inn hótelið í St. Pétursborg, yrði sprengt í loft upp. Höfðu menn hraðar hendur við að ljúka afgreiðslu ályktunar án þess að tóm gæfist til að ljúka mælendaskrá. Skipuleggjendurnir sem gáfu fyrirmæli um að yfirgefa fundarsalinn fullyrtu að „óvinir“ þeirra hefðu kallað lögreglu á vettvang til að eyðileggja ráðstefnunni. Ekki hefur verið upplýst hver hótaði með sprengjunni.

Rússnesk stjórnvöld tóku enga afstöðu til ráðstefnunnar, Skipuleggjendur hennar vildu hins vegar skipa sér við hlið Pútíns með því að vitna til hans af velþóknun í ráðstefnugögnum.

Merki ráðstefnunnar er álft sem stendur á Rússlandskorti, undir fuglinum er textinn: Nú eða aldrei.

Yfirlýst markmið ráðstefnunnar var að „þróa og styrkja menningarleg, andleg og viðskiptaleg tengsl milli landa Evrópu og Rússlands“.

Þess var vænst að um 300 manns sætu ráðstefnuna. Henni var lýst sem samevrópskri hátíð hægri öfgamanna í Frankfurter Allgemeine Zeitung. Frá Þýskalandi komu flokksmenn NPD, Nationaldemokratische Partei Deutschlands, þeir skipa sér lengst til hægri í þýskum stjórnmálum og eru almennt kallaðir ný-nazistar. Frá Ítalíu komu menn úr flokknum Forza Nuova sem studdi innlimun Krímskaga í Rússland. Gyllt dögun sendi Grikki. BNP, British National Party, átti þarna fulltrúa og Ataka frá Búlgaríu einnig var von á fulltrúum frá Danmörku, Svíþjóð og Spáni.

Á Holliday Inn hótelinu í St. Pétursborg hittu erlendu gestirnir talsmenn hinnar stórrússnesku útþenslustefnu. Þarna voru til dæmis fulltrúar aðskilnaðarsinna í Úkraínu, þar á meðal Alexander Kofman svonefndur utanríkisráðherra Alþýðulýðveldisins Donetsk. Fulltrúi Rússnesku keisarahreyfingarinnar tók einnig þátt í ráðstefnunni en markmið hreyfingarinnar er að hvetja rússneska karlmenn til sameiginlegrar baráttu fyrir Nýju-Rússlandi undir keisaralegum fána.

Stofnun í Ungverjalandi, Political Capital institute, birti nýlega niðurstöður athugunar sem leiddi í ljós að 15 öfgaflokkar til hægri í 21 ESB-ríki hafa opinberlega lýst skilningi á málstað Rússa.

Þjóðfylking Marine Le Pen í Frakklandi átti ekki fulltrúa á ráðstefnunni en í nóvember 2014 birtust fréttir um að flokkurinn hefði fengið 9 milljónir evra að láni frá banka í Moskvu.

Í samtali við The Moscow Times sagði Roberto Fiore, leiðtogi Forza Nuova á Ítalíu, að hann hefði aldrei leitað eftir fjárstuðningi frá Rússum. „Ég leita að svörum við djúpum pólitískum og heimspekilegum vangaveltum í Rússlandi. Þess vegna hef ég haft samband við fólk, einkum rússneska mennta- og menningarmenn en nú færum við okkur meira yfir í stjórnmálin,“ sagði Fiore sem hefur ræktað tengsl við Rússland síðan árið 2005.

Í The Moscow Times segir að í ljósi þess hve nazistar léku íbúa Leníngrad (nú St. Pétursborg) hroðalega illa og sýndu þeim mikla grimmd í 900 daga umsátri í síðari heimsstyrjöldinni sé mjög óviðurkvæmilegt að velja borgina sem fundarstað fyrir fulltrúa stjórnmálaafla af þessum toga.

Landstjórinn í St. Pétursborg lét hins vegar ekki svo lítið að svara þeim sem hvöttu hann til þess að banna þessa öfga-ráðstefnu í borginni. Að morgni sunnudagsins 22. mars birtist rauður borði á vefsíðu ráðstefnunnar með þessum viðvörunarorðum: „Óvinir Rússlands munu ekki hindra að Alþjóðlega rússneska íhaldsráðstefnan verði haldin.“

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS